Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:38:01 (1912)

1999-11-18 16:38:01# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ber engan kvíðboga fyrir framtíðinni að öðru leyti en því að það er að renna upp fyrir mér hvílíkir peningalegir fúskarar stýra þessum málum, hvílíkt peningalegt fúsk er á ferðinni. Þetta er smám saman að renna upp fyrir þjóðinni, hagfræðingar eru núna að koma fram á sjónarsviðið með grein eftir grein þar sem þeir færa fram rök fyrir því að þetta er peningalegt fúsk. Það er verið að setja efnahagslíf þjóðarinnar allt á spil. Menn eru að tala um framkvæmdir sem nema yfir 200 milljörðum kr. á næstu árum, menn eru að tala um þetta.

Á sama tíma eru þessir sömu aðilar að tala um að selja allar eignir þjóðarinnar, Landsvirkjun, Landsbankann, Búnaðarbankann, Landssímann. Hvar ætla þeir að taka þá peninga? Og allt þetta á að fjármagna úr innlendum sjóðum, lífeyrissjóðum landsmanna. Það er lausnarorðið núna. Síðan á að leysa atvinnumál á Austurlandi með því að koma fjórða hverjum vinnandi manni inn í álver.