Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:46:03 (1953)

1999-11-18 17:46:03# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að menn greini ekki á um að þjóðhagsleg hagkvæmt hafi verið að virkja og byggja verksmiðjur. En menn greinir á um hagkvæmni virkjananna einna og sér. Í því sambandi væri fróðlegt að menn rifjuðu upp hver arðurinn hefur verið af Landsvirkjun undanfarna áratugi. Spurningin er þessi: Hvaða kröfur þarf að gera, hvað þarf rafmagnið að kosta? Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér áðan ákveðið verð, veit hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson eitthvað meira?

Eins og hv. þm. lýsir því tók Alþingi ákvörðun um Blönduvirkjun án þess að hafa nægilega öruggar upplýsingar í höndunum. Mér sýnist að hér eigi Alþingi að taka ákvörðun um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun án þess að hafa nokkuð í höndunum. Það liggur nákvæmlega þannig fyrir og út á það gengur þessi tillaga. Ef hv. þm. veit meira en þegar er fram komið um niðurstöðuna, þá mundi það nú strax upplýsa málið nokkuð.

Síðan er líka spurning um við hverja gera eigi þessa samninga. Við hverja á að semja? Norsk Hydro er talið verða með 20--25% eignaraðild að virkjuninni. Hverja aðra á að semja við? Við sjáum ekki þann hóp enn þá. Þar er líka eitthvað óljóst. Samt er gerð krafa um að Alþingi samþykki framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Getur hv. þm. upplýst betur um þessa þætti sem vefjast fyrir býsna mörgum?