Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:37:53 (1974)

1999-11-18 18:37:53# 125. lþ. 29.6 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um gjaldeyrismál. Í máli hæstv. viðskrh. kom fram að markmið frv. sé að bæta þjónustu við viðskiptamenn þegar fjármunir eru færðir á milli viðskiptareikninga, á milli aðildarríkja innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Þetta mál mun nú ganga til þingnefndar þar sem það fær umfjöllun og skoðun.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. á þessu stigi. Ég á einfaldlega eftir að kynna mér innihald þess betur. En mig langar til að leggja örfá orð í belg, ekki síst í tilefni orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur.

Ég er alveg sammála því að það er mjög mikilvægt að ræða hin svokölluðu Evrópumál og að hér sé jafnan upplýst umræða um það efni. Nú er efst á baugi að fjalla um evruna og þjóðir Evrópu velta því fyrir sér hvort þær eigi að gerast aðilar að Evrópumyntinni. Sumar hafa tekið ákvörðun um það. Aðrar hafa ekki gert það. En ég vil mótmæla því að þessi umræða hafi ekki farið fram. Ég minni á að starfandi var nefnd á vegum forsrn. sem fjallaði sérstaklega um sameiginlegan evrópskan gjaldmiðil og ekki alls fyrir löngu birti Seðlabanki Íslands mjög ítarlega og fróðlega skýrslu um evruna.

Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að við höldum upplýstri umræðu um þetta áfram. Evran, hin sameiginlega mynt, gengur út á það að við undirgöngumst stjórn evrópsks seðlabanka, að við undirgöngumst það að evrópskur seðlabanki stýri genginu. (Viðskrh.: Það er í Evrópusambandinu.) Já, forsenda þess er náttúrlega að menn séu í Evrópusambandinu. En sá kostur sem við höfum tekið er að reyna að laga okkur að þeim skilyrðum og skilmálum sem sett hafa verið til að fá aðild að evrunni. Reyndar var það nú svo að Íslendingar voru einna fyrstir þjóða til að uppfylla þessi skilyrði, t.d. varðandi skuldahlutfall hins opinbera sem var lægra hér og held ég í Lúxemborg en víðast hvar annars staðar. Við vorum og höfum verið með stöðugt verðlag líka. Það var helst á sviði vaxtamálanna sem við uppfylltum ekki tilskildar kvaðir.

Nú er ég því fylgjandi að menn reyni að halda gengi stöðugu í einu landi. Ég er því fylgjandi. Ég minnist að síðasta árið sem gengið var fellt verulega mun hafa verið árið 1989. Ef ég man rétt þá var gengið fellt á því ári um 30%. Það var ávísun á 15% kaupmáttarhrap hjá launafólki og ekki vil ég slíka tíma aftur. En við hinu vil ég vara, að undirgangast stjórn evrópska seðlabankans vegna þess að við búum við önnur skilyrði en mörg önnur efnahagssvæði gera að ýmsu leyti, sérstaklega tvennu. Í fyrsta lagi eru sveiflur meiri hér á landi en gerast víða í Evrópu. Í annan stað er það staðreynd að vinnuaflið er ekki eins hreyfanlegt hér og gerist annars staðar, einfaldlega vegna þess að við búum á eyju langt norður í hafi. Ef sú stefna er tekin að halda gengi stöðugu þá er áföllum mætt eða sveiflum í efnahagslífinu með atvinnuleysi og reynt að stuðla að því að vinnuaflið streymi eftir atvinnutækifærunum. Þessir tveir þættir, sveiflur í íslenska hagkerfinu og einangrun landsins valda því að ég teldi óráðlegt að tengjast evrunni þótt, eins og hæstv. viðskrh. benti á í frammíkalli, að forsenda fyrir slíku væri að sjálfsögðu aðild að Evrópusambandinu. Þetta vildi ég láta koma fram.

Ég vil leggja áherslu á að mér finnst mikilvægt að ræða Evrópumálin. Sjálfur hef ég oft tekið þátt í slíkri umræðu. Ég hef fylgst af athygli með því sem fram hefur komið um evruna t.d. á vegum forsrn. í þeirri nefnd sem skipuð var til að fjalla sérstaklega um hana, í skýrslugerðum Seðlabankans, mjög athyglisverðum skýrslum, og ég hef fyrir mitt leyti og við höfum gert það í okkar flokki, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, tekið afstöðu til málsins. Við teljum ráðlegt að þróa samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði í átt að tvíhliða samkomulagi, láta á það reyna hvort okkur tekst að ná samningi um tvíhliða samning á svipuðum nótum og Svisslendingar hafa. Ýmsir gagnrýna það fyrirkomulag. Ég sé ýmsa bjarta bletti á því. Þeir hafa lagað sig á marga lund að þessu samkomulagi en þó ekki svo að það sé skuldbindandi. Ég fæ því ekki séð annað en þessi umræða um Evrópumálin sé við lýði, sé kraftmikil, hafi verið það og eigi að vera það áfram. Síðan hlýtur maður að spyrja á hvern hátt stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar mynda sér afstöðu í málinu.