Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:14:56 (1994)

1999-11-22 15:14:56# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að hv. formaður iðnn. þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég vilji að þetta mál fari til umhvn. vegna þess að iðnn. væri ekki treystandi fyrir svona flóknu máli. Það voru ekki mín orð og ekki heldur mín meining. (Gripið fram í: Það hlýtur bara að vera.) Ég lít hins vegar þannig á að í hv. Alþingi eigi menn að vera samkvæmir sjálfum sér. Þegar það hefur verið sett í þingsköp Alþingis að málum skuli velja samastað eftir efni þeirra, þá eiga menn að halda sig við þá skilgreiningu. Mér finnst alveg fáránlegt að það skuli verða pólitísk niðurstaða hjá stjórnarflokkunum að láta mál fara í aðra nefnd en það á að fara í samkvæmt þingsköpum. Ég mótmæli því og ég skora á hæstv. forseta að hlutast til um að hér fari mál að þingsköpum. Mér finnst að það ætti að vera tillaga hans að farið verði eftir þingsköpum en ekki að farið verði gegn anda þeirra eins og hér á að gera.

Það er líka alveg ótrúlegt að sjá að þeir sem sömdu tillöguna hafa samt ákveðið, og þá áður en tillagan kom til afgreiðslu í þinginu, að setja fremst í tillöguna tilvitnun í skýrslu um umhverfisáhrif. Upphaf tillögunnar gengur út á það að Alþingi eigi að styðjast við skýrslu um umhverfisáhrif sem er aðalgagnið með þessari þáltill. Og að aðalgagnið skuli ekki ráða því hvert málið fer síðan til umfjöllunar á hv. Alþingi í nefndum þingsins, finnst mér fráleitt, þ.e. að það skuli ekki ráða niðurstöðunni. Ég skora á hv. þingmenn að vera samkvæma sjálfum sér og senda þetta mál þangað sem það á að vera. Umhvn. mun auðvitað vísa málinu til umsagnar iðnn. þannig að iðnn. geti fjallað um þau málefni sem sannarlega tilheyra iðnn. hvað þetta mál varðar.