Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 15:20:22 (1997)

1999-11-22 15:20:22# 125. lþ. 30.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SighB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Sighvatur Björgvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við skulum gera okkur grein fyrir því hvernig þetta mál hefur verið lagt fyrir Alþingi. Kynnt hefur verið á Alþingi skýrsla um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar sem Landsvirkjun hefur unnið og hún hefur verið kynnt fyrir okkur þingmönnum sem fullnægjandi frummat á umhverfisáhrifum. Hæstv. iðnrh. hefur því um tvær leiðir að velja, þ.e. annars vegar að senda skýrsluna áfram til skipulagsstjóra til umhverfismats, eins og samgrh. gerði með Gilsfjarðarbú sem þó var ekki skylt að fara í það ferli, hins vegar að leggja þessa frummatsskýrslu fyrir Alþingi og óska eftir því að Alþingi taki að sér það vinnuferli sem skipulagsstjóri hefði ella átt að stýra. Og þannig var málið kynnt, virðulegi forseti, fyrir Alþingi.

Hæstv. forsrh. sagði, ef ég man rétt, t.d. að alþingimenn væru ekkert ófærari um að leggja mat á frummatsskýrslu um umhverfisáhrif en skipulagsstjóri ríkisins. Hann lagði því það mál þannig fyrir Alþingi að hér væri Alþingi að taka að sér verk sem umhverfisaðilar ættu ella að vinna, þ.e. að leggja mat á frummatsskýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar.

Og hver á þá að vinna það umhverfismat hér á Alþingi? Á iðnn. að gera það, kannski fjárln.? Af hverju ekki sú nefnd þingsins sem fjallar um nákvæmlega þennan málaflokk sem verið er að biðja hæstv. Alþingi um að vinna? Eins og málið er lagt fyrir Alþingi, herra forseti, þar sem beðið er um að Alþingi taki við umhverfismatsferlinu, þá er náttúrlega eðlilegt að sú nefnd Alþings sem fjallar um þau mál taki við verkstjórn verksins. Annað er í mótsögn við málflutning þeirra ráðherra sem hafa kynnt þessa till. til þál. fyrir Alþingi.