Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 17:57:03 (2022)

1999-11-22 17:57:03# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þm. Ásta Möller var fjarstödd þegar ég flutti mál mitt áðan þá vildi ég aðeins koma að því sem hún sagði um hjúkrunar- og læknaþátt þessara hjúkrunarheimila. Ég verð að viðurkenna að ég hef spurt sjálfan mig þeirrar spurningar hvort við séum föst í einhverjum ákveðnum fasa eða viðjum vanans t.d. þegar litið er til Danmerkur. Þegar fólk þar flyst inn á hjúkrunarheimili eða heimili fyrir aldraða þá er til staðar einn hjúkrunarforstjóri. Annað fagfólk er sjúkraliðar sem eru misvel menntaðir. Sumir eru komnir á það stig að þeir megi sprauta og gefa lyf, aðrir hafa minni menntun en sinna þó öldruðum.

Fylgjum við alveg réttri stefnu núna? Þegar litið er til Danmerkur, eins og ég var að vitna til, þá er mjög algengt þegar aldraðir koma inn á slík heimili að heimilislæknir fylgi þeim áfram ef fjarlægðir eru ekki of miklar. Ég velti líka vöngum yfir því hvers vegna megi ekki setja upp heilsugæslu á dvalarheimili eins og t.d. Hrafnistu þar sem eru á annað hundrað þjónustuíbúðir með líklega á þriðja hundrað manns, til að þjónusta þetta fólk. En það virðist vera lögum samkvæmt ekki leyfilegt. Þess vegna þarf að fara um langan veg til að sækja viðkomandi heilsugæslu.

Ég tel að við séum í ákveðnum föstum venjum sem við þurfum að fara að horfa aðeins á til að geta veitt þessa þjónustu. Á sama tíma og við erum í stórkostlegum vanda með hjúkrunarfræðinga þá er eins og aðrir megi ekki koma að. Ég tel að full ástæða sé til að efla enn frekar menntun sjúkraliða til að geta sinnt og mætt þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra heimila.