Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 19:59:37 (2053)

1999-11-22 19:59:37# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[19:59]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar til að gera 6. gr. frv. til útvarpslaga að umtalsefni. Sú grein lýtur að leyfi til útvarps. Í 3. lið stendur, með leyfi forseta:

,,Útvarpsréttarnefnd getur veitt lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til útvarps. Leyfi til hljóðvarps má lengst veita til fimm ára í senn en til sjónvarps lengst til sjö ára í senn. Nánari ákvæði um gildistíma útvarpsleyfa skulu sett í reglugerð. Heimilt er að binda leyfi við afmörkuð svæði.``

[20:00]

Í greinargerð með þessum lið er ,,orðuð sú regla að heimilt sé að binda útvarpsleyfi við afmörkuð svæði. Í 1. mgr. 3. gr. gildandi útvarpslaga er gert ráð fyrir því að leyfi sé aðeins gefið út til útvarps á afmörkuðum svæðum. Hefur regla þessi valdið nokkrum erfiðleikum í framkvæmd, og hefur t.d. þurft að veita ný útvarpsleyfi til útvarpsstöðva eftir því sem þær hafa náð að auka útbreiðslu sína. Verður að telja þetta óþarft umstang svo að gert er ráð fyrir að útvarpsleyfi nái almennt til landsins alls. Rétt þykir þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að útvarpsleyfi nái aðeins til afmarkaðra svæða, t.d. vegna óska umsækjanda sjálfs.``

Þarna virðist aðeins gert ráð fyrir að annar aðilinn geri kröfur. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé líka hægt að binda í lögum að gera megi þjónustukröfur, þ.e. kröfur til þess sem fær leyfi til útvarps eða sjónvarps þannig að honum sé skylt að veita ákveðna þjónustu, að útsendingar nái svo og svo vítt um landið eða til svo og svo margra hlustenda og honum beri síðan að uppfylla þær kröfur. Í sjálfu sér er það ekki sama þjónusta ef veitt eru leyfi til útvarpsstöðva sem síðan útvarpa aðeins á afmörkuðum hluta landsins, kannski þeim þéttbýlasta eins og hér á Reykjavíkursvæðinu og þykjast svo geta krafist réttar síns í krafti samkeppninnar. Við verðum að taka tillit til þjónustusvæðisins og samkeppnisstöðu þeirra sem veita þjónustu sína um landið allt. Mér finnst þess vegna ansi frjálslegt að segja: ,,vegna óska umsækjanda sjálfs``.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. menntmrh. hvort ekki sé ástæða til að gefa hreinlega heimild til að krefjast ákveðins þjónustustigs og þess að útsendingar nái til ákveðinna svæða. Við stöndum frammi fyrir því að í krafti hinna ýmsu samkeppnishugmynda fá hinir og þessir þennan rétt til að afla sér tekna og setja þá jafnframt öðrum skorður. Ég horfi þarna til okkar ágæta Ríkisútvarps sem hefur skyldur um allt land. Hvað eftir annað er vegið að Ríkisútvarpinu og því haldið fram að það sé ekki rekið á samkeppnisgrunni. Sá grunnur verður þá að vera sanngjarn þannig að þjónusta þeirra sem sækja að Ríkisútvarpinu nái til alls landsins, að þeir hafi sama þjónustustig og við gerum almennt kröfu um.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að mun sterkar verði kveðið á um hvaða kröfur um þjónustustig séu gerðar til útvarpsstöðva og þá sé ljóst hver samkeppnisrammi þeirra er, að hann sé ekki ímyndaður eins og við stöndum nú oft frammi fyrir í umræðunni.

Varðandi þá umræðu sem hæstv. ráðherra kom inn á um Ríkisútvarpið, sem er honum afar hugleikið, þá mundi ég nú heldur hvetja hann til að ganga til verks með okkur hinum og styrkja virkilega samkeppnisstöðu Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það virkilega myndarlega svo það fái þá stöðu sem því ber og nauðsyn er.

Ég lærði það í hagfræðinni, herra forseti, að ef maður stofnar hlutafélag þá er það til að geta selt hlut í því. Það væri engin sérstök ástæða til þess að stofna hlutafélag ef ekki væri möguleikinn á að selja hlut eða koma á markað þannig að hægt væri að reikna arðsemi félagsins o.s.frv. Í mínum huga er Ríkisútvarpið ekki atvinnufyrirtæki í þeirri merkingu að það eigi fyrst og fremst að skaffa eigendum sínum arð. Því ber fremur að veita þjónustu. Sjáum t.d. Landssímann og Íslandspóst, þar er meiri áhersla lögð á arðsemina en þjónustustigið. Það vil ég ógjarnan þurfa að upplifa með okkar ágæta útvarp. Ég vil að umræðan gagnvart Ríkisútvarpinu hætti að vera á svona neikvæðum nótum. Fremur ætti að taka myndarlega á því að styðja stofnunina þannig að hún fái risið undir þeim væntingum og þeirri tiltrú sem við berum til hennar.