Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:47:04 (2069)

1999-11-22 20:47:04# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða þróast lítið því að alltaf er verið að segja það sama. Það er alltaf verið að fullyrða að breyting á Ríkisútvarpinu í hlutafélag jafngildi því að það verði selt eða þá að gefa til kynna að ég sem menntmrh. muni misfara með hlutabréf ríkisins í félaginu.

Hvað sem því líður og hvað sem líður afstöðu formanns Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins liggur það fyrir að stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa sent mér bréf og mælst til þess að ég sem menntmrh. beitti mér fyrir því að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Þessu verður ekki mótmælt og ef þeir eru að gera það til þess að ég fái þar aukin völd þá er vel. Þeir eru ekki að gera það til þess að Ríkisútvarpið verði selt enda hef ég ekki verið talsmaður þess að Ríkisútvarpið verði selt. Þeir eru að gera það til þess að styrkja stöðu fyrirtækisins í harðnandi samkeppni.