Útvarpslög

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 20:49:18 (2071)

1999-11-22 20:49:18# 125. lþ. 30.10 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[20:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði frekar áhuga á að heyra hvers lags stofnun þessir ágætu menn vildu að Ríkisútvarpið væri og hvar ætti að setja mörkin við þróun þess, hvenær hefði átt að stöðva klukkuna og hvenær hefði átt að fara að snúa henni til baka.

Svo er hitt líka. Það er náttúrlega mikið álitamál þegar þessir hv. þm. eru að tala. Hvers vegna gerast þeir ekki málsvarar þess að Ríkisútvarpið selji t.d. Rás 2? Þetta er Rás 2 sem fer svo mikið í taugarnar á þeim og það sem er að gerast á Rás 2. Ég held að þessir hv. þm. hljóti að fara að tala um það í hv. þingsalnum að ... (ÖJ: Er það markmiðið?) Mér heyrðist það á hv. þm. Þeir finni svo mikið að dagskrá Rásar 2 og telja það óvirðingu við hlustendur Ríkisútvarpsins hvernig hún stendur að málum að þeir hljóti að komast að þeirri niðurstöðu að hún eigi að einkavæðast.

Hins vegar er ég með úrklippu úr norsku blaði, Aftenposten, þar sem norska Stórþingið er að samþykkja núna að rýmka heimildir norska ríkisútvarpsins til kostunar, gefa norska ríkisútvarpinu aukið frelsi til kostunar.