Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 16:21:28 (2105)

1999-11-23 16:21:28# 125. lþ. 31.12 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[16:21]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en óskað eftir því að umræðan bíði þangað til hæstv. sjútvrh. getur verið viðstaddur því að ég hef eins og hér hefur komið fram ákveðna spurningu til hans sem byggist á því sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur lýst yfir að eigi að vera þau vinnubrögð sem hann beiti í málinu. Þarna er um að ræða fullkomna sátt í heilu byggðarlagi milli pólitískra aðila og hagsmunaaðila um tiltekna lausn. Þetta byggðarlag er í kjördæmi formanns sjútvn. og hann lætur sig hafa að vera fjarverandi þegar ræða á málið til viðbótar við ráðherrann.

Virðulegi forseti. Ég fer þess eindregið á leit ef flutningsmenn málanna andmæla því ekki að umræða um þau sé látin bíða þangað til hæstv. sjútvrh. getur verið við og beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta að það verði séð um að þeim verði það vel fyrir komið á dagskrá fundar að eðlileg mæting sé í þingsölum af þeim sem hafa mætingarskyldu og að menn sæti því ekki eins og hv. flm. þriðja málsins af þessum þremur dagskrármálum, hv. þm. Pétur Blöndal, að mál af því tagi sem hann flytur séu alltaf síðust á dagskrá allra þingfunda.