Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:39:52 (2138)

1999-12-02 10:39:52# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla orðum hæstv. iðnrh. um að ég sé hér einungis í því augnamiði að tefja störf þingsins. Það er ekki rétt. Ég er hér í því augnamiði að umhvn. fái það ráðrúm að hún geti innt vinnu sína eins vel af hendi og henni er frekast unnt. Ég fullyrði að nefndin hefur unnið af stakri natni. Þrátt fyrir mótmæli stjórnarandstöðunnar í upphafi við þessa málsmeðferð, hafa allir stjórnarandstöðuþingmenn a.m.k. einhent sér í málið. Hins vegar hefur verið erfiðara fyrir þingmenn stjórnarliða að mæta á fundi nefndarinnar en það er alveg ljóst að hér er verið að tala um vönduð vinnubrögð umhvn. Þetta er umhverfismál. Umhvn. er öll af vilja gerð. Hún hefur unnið baki brotnu í marga daga. Við erum tilbúin að vinna í fleiri daga en við erum ekki, hæstv. forseti, tilbúin að skila af okkur áliti til iðnn. þann 6. desember. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er bitamunur en ekki fjár í þessum yfirlýsingum frá Norsk Hydro. Hæstv. iðnrh. leggur áherslu á að möguleg frestun málsins frá Alþingi gæti þýtt það að ekkert yrði af framkvæmdum en í yfirlýsingum Norsk Hydro er einungis getið um að það muni auka áhættuna á því að ekkert verði úr framkvæmdum en eftir stendur að breyting á tímasetningunum mun ekki leiða til þess að fyrirtækið missi áhugann á verkinu.