Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:11:39 (2161)

1999-12-02 12:11:39# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir máli sem boðað var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í vor og felst í flutningi yfirstjórnar Seðlabanka Íslands frá viðskrn. til forsrn. sem er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingu, og fleiri lögum.

Þegar litið er til hlutverks forsrn. í pólitísku samhengi vegur þungt að forsrh. fer með heildaryfirstjórn ýmissa mikilvægra efnahagsmála og samræmingu á því sviði. Forsrh. fer þannig með stefnumörkun í efnahagsmálum og leggur fram þjóðhagsáætlun og hann fer með samráð stjórnvalda við samtök launafólks og sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Af þessum sökum heyrir Þjóðhagsstofnun til að mynda beint undir forsrh., en meðal verkefna hennar er að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum.

Lögum samkvæmt er Seðlabanka Íslands ætlað að vera einn helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um mótun stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Ákvörðun um að flytja yfirstjórn bankans til forsrn. er því liður í að styrkja framangreint hlutverk þess sem ráðuneytis efnahagsmála. Þetta meginefni frv. kemur fram í 4. gr. þess og í athugasemdum við það ákvæði er aðkomu ráðherra að stjórn bankans lýst.

Rétt er að taka fram að frv. þetta gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum á þessum heimildum ráðherra gagnvart bankanum. Eðli máls samkvæmt er sjálfstæði Seðlabankans varið með þeim hætti að yfirstjórn ráðherra er ekki ætlað að hafa mikil áhrif á daglega starfsemi hans.

Eins og fram kemur í athugasemdum við 4. gr. frv. er ráðherra fyrst og fremst ætlað að sjá til þess að stjórn bankans sé skipuð og sé starfhæf og að velja mann til forustu í bankaráði, skipa bankanum sjálfstæðan endurskoðanda o.s.frv. Viðskrh. verður hins vegar áfram með mál er varða innlendar lánastofnanir, fjármagnsmarkað og erlendar fjárfestingar í atvinnurekstri, en það eru allt mál sem skipað er með öðrum lögum en lögum um Seðlabanka.

Með tilliti til hlutverks Seðlabankans við hagstjórn og stefnumótun í efnahagsmálum þykir eðlilegt að mál er varða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heyri undir þann ráðherra er fer með yfirstjórn bankans, en breytingar á 1. og 3. gr. eru tilkomnar af þeim sökum.

Að þessu sögðu er að lokum ástæða til að leggja enn áherslu á að frv. þetta hreyfir ekki með neinu móti við hlutverki Seðlabankans, starfsemi hans eða stjórnskipulagi, þar með töldu hlutverki bankaráðs, að öðru leyti en því sem ég hef þegar greint frá. Með því að frv. lýtur þannig einungis að breytingum á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins legg ég einnig til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.