Íslenska velferðarkerfið

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 14:44:37 (2426)

1999-12-07 14:44:37# 125. lþ. 37.94 fundur 195#B íslenska velferðarkerfið# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[14:44]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræða og þá fyrst og fremst hv. frummælanda fyrir að óska eftir henni. Ég vil einnig taka undir þakkir þeirra þingmanna sem hér hafa talað og sérstaklega talað um að þakkarvert væri það rit sem Stefán Ólafsson gaf út og getur leiðbeint okkur verulega á þeirri braut sem fram undan er að marka stefnuna hvað varðar íslenska velferðarkerfið.

[14:45]

Ég verð hins vegar að segja að ég var ósátt við svör hæstv. ráðherra heilbrigðismála þar sem að ég gat ekki skilið hana öðruvísi en að skýrslan ætti fyrst og fremst að hvetja til umræðna um niðurstöðuna. Niðurstöðurnar kæmu að vísu ekki á óvart og þakka skyldi hæstv. ráðherra þar sem Öryrkjabandalagið og hagsmunasamtök þeirra aðila sem fyrst og fremst er verið að fjalla um í þessari umræðu hafa ítrekað vakið athygli ráðuneytis og hv. þingmanna á bágum kjörum mjög margra í hópi öryrkja, aldraðra og svo láglaunafólks í landinu. Það hefur ekki einungis verið gert með blaðagreinum, ræðuhöldum og skrifum, heldur og ekki síður með því að senda hv. þingmönnum, ráðuneyti og hæstv. ráðherra erindi þannig að sannarlega koma niðurstöðurnar ekki á óvart. Það er hins vegar kominn tími til að taka sérstaklega á hvað varðar þessa hópa. Mig minnir að um 20% þjóðarinnar falli undir þá skilgreiningu sem hér hefur fyrst og fremst verið rædd, þ.e. aldraðir og öryrkjar og svo láglaunafólkið, þeir sem eru í lægstu tekjuhópunum, og það er staðreynd að þeir búa við verri kjör en sambærilegir eða sömu hópar á Norðurlöndunum. Það er ekki rangt að íslenska velferðarkerfið standist ekki samanburð við kerfi hinna Norðurlandanna. Það kemur mjög skýrt fram varðandi ákveðna hópa þjóðfélagsþegna sem hafa það hvað verst hér, að kjör sambærilegra hópa á Norðurlöndunum eru miklu betri. Það segir skýrslan. Vissulega stöndum við okkur vel á ákveðnum sviðum og þakka skyldi okkur þar sem að við erum í hópi ríkustu þjóða heims, fámenn þjóð, og ekkert ríki sem við berum okkur saman við hefur í raun sömu möguleika og við til þess að grípa til aðgerða sem stuðla að jöfnuði.

Hæstv. forsrh. fór mikinn og vitnaði hér sérstaklega í ákveðinn þjóðarleiðtoða, Fidel Castro á Kúbu, þar sem að fátæktin væri algjör en jöfnuður væri þó algjör. Fidel Castro hefur þann sið að koma fram öðru hverju og segja þjóð sinni að hún sé hamingjusöm og hafi það bara harla gott í samanburði við aðrar þjóðir. Ég þekki vel annan leiðtoga, í ríkisstjórn Íslands, sem hefur tekið upp nákvæmlega þennan sama sið.