Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 15:32:21 (2432)

1999-12-07 15:32:21# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í tillögu hv. fjárln., brtt. við fjáraukalögin, koma fram margar tölur og ég vil beina kastljósinu að stærstu tölunni, sem er Ríkisspítalarnir. Í fjárlögum er byggt á áætlunum viðkomandi stofnunar. Síðan var sú áætlun rædd í fjárln. og lögð mikil vinna í það. Svo komu brtt. við fjárlög sem voru samþykktar rétt fyrir síðustu jól. Það er ekki komið ár síðan. Þar var áætlun stofnunarinnar um fjárútlát og rekstur á árinu 1999. Síðan kemur fram frv. til fjáraukalaga sem var dreift núna í byrjun þings og þar kemur í ljós að 488 millj. vantar hjá þeirri stofnun. Fjárln. fjallar síðan um málið og enn sígur á ógæfuhliðina því hún leggur til 378 millj. til viðbótar, þannig að þetta er komið upp í 867 millj., eða 6 þús. kr. á hvern vinnandi Íslending, sem þessi eina stofnun hefur farið fram úr þeim áætlunum sem hún sjálf hafði lagt til fyrir árið 1999, fyrir ekki einu ári.

Spurning mín til hv. þm., formanns fjárln., Jóns Kristjánssonar, er: Hvaða skilaboð erum við að senda út til opinberra fyrirtækja? Þau sem standa í skilum minnka og minnka, en þau sem halda sig ekki við fjárlögin, fara ekki að lögum, vaxa og vaxa. Hvar er ábyrgð forsvarsmanna slíkra fyrirtækja?