Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 15:39:12 (2436)

1999-12-07 15:39:12# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu formanns fjárln., hv. þm. Jóns Kristjánssonar, kom fram það sem hér er verið að ræða og það sem fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndal beindist að. Ég ætla þess vegna ekki að gera Ríkisspítalana að umræðuefni, en mig langar til að spyrja vegna þeirrar töflu sem birtist á bls. 6 í nál. meiri hlutans, hvort það hafi verið kannað af fjárln. að þær stofnanir sem hafa haldið sig nokkurn veginn innan fjárlagarammans, eins og t.d. stofnanir í Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Hólmavík, eða Vopnafirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi, hafi þá greitt lægri laun til starfsfólksins eða með hvaða aðferðum hafa þær stofnanir haldið sig innan rammans eða mjög nærri rammanum? Við sjáum t.d. að heilbrigðisstofnanirnar á Egilsstöðum, Seyðisfirði og í Neskaupstað fara samanlagt í tæplega 165 millj. fram úr fjárlögum. Allar stofnanir fá þá að keyra fram úr. Ég held að athugandi væri að fara að snúa þessu dæmi við og verðlauna þá sem að standa sig í rekstrinum og þess vegna spyr ég: Var það kannað hvernig forstöðumenn stofnana sem stóðu sig vel, stóðu að þeim rekstri?