Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 16:23:39 (2442)

1999-12-07 16:23:39# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[16:23]

Frsm. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki verið í hópi þeirra sem hafa komið í ræðustól Alþingis og heimtað aukin laun fyrir hina og þessa hópa í þjóðfélaginu. Ég minnist þess þó að ég kom hingað og taldi að nauðsynlegt væri að hækka laun unglækna til að tapa þeim ekki burtu. Ég vísa því á bug að ég hafi verið með stóryrði gagnvart einhverjum sem ekki verðskulduðu það. Ég sagði aldrei að Magnús Pétursson væri skussi og hef gengið fram með svardögum um að hann sé það ekki. Ég hef kannski farið hættulega nærri því að segja að hæstv. heilbrrh. væri skussi en ég gerði það þó ekki, herra forseti. (Heilbrrh.: Þú hefur tækifæri núna.)

Við erum hér, herra forseti, að ræða eitt alvarlegasta málið í ríkisfjármálunum og hæstv. heilbrrh. lætur bara eins og þetta sé eitthvert flím og grín. Hvað mundu menn gera í alvöruþjóðfélögum þegar ráðherra kæmi fram með allt svona niður um sig í fjármálalegu efni? Halda þingmenn að sá ráðherra yrði klappaður upp í þinginu? Ætlar þetta þing að gera það?

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að í staðinn fyrir að hæstv. ráðherra komi hérna með einhvern skæting og útúrsnúning, þá komi hún með málefnalegt tillegg og segi okkur frá því hvernig hún ætlar að varðveita hag skattborgaranna. Hvernig ætlar hún að koma í veg fyrir að það sem við erum að gera núna bregðist í þriðja sinnið á þremur árum?