Fjáraukalög 1999

Þriðjudaginn 07. desember 1999, kl. 16:24:55 (2443)

1999-12-07 16:24:55# 125. lþ. 37.3 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði og varð tíðrætt um hvernig hægt væri að verja það að ýmsar stofnanir færu fram úr heimildum, á annað hundrað stofnanir í heilbrigðiskerfinu sem hann gerði sérstaklega að umtalsefni. Svarið er að annaðhvort leysum við þetta mál eða lokum stofnununum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að loka svo mörgum stofnunum, það liggur í augum uppi. Það er hins vegar ljóst að stjórnendur stofnana hafa farið afar frjálslega með umboð sitt.

Hitt get ég sagt að þetta verður í síðasta skipti sem fjáraukalögin munu líta út með þessum hætti. Í nál. meiri hluta fjárln. er býsna mikið sagt og þar eru skilaboðin sem hv. þm. hefur verið að kalla eftir. Það er nánast gjörgæsla eða réttara sagt lögreglueftirlit á því að farið verði að fjárlögum og menn virði lög en brjóti þau ekki.

Í nál. frá meiri hluta fjárln. segir svo:

,,Til að tryggja rétta framkvæmd ákvarðana Alþingis um fjárframlög til stofnana og verkefna verður gert sérstakt átak sem Ríkisendurskoðun mun upplýsa um með skýrslugerð hvernig fram gengur af hálfu ráðuneytis og stofnana. Áformað er að í samningum við hverja stofnun komi skýrt fram hver fjárframlög eru og að stjórnendur beri ábyrgð á að reksturinn sé innan fjárheimilda. Jafnframt verði erindisbréf stjórnenda endurskoðuð og ábyrgð og eftirlitshlutverk stjórna endurmetið.`` --- Einnig segir hér: --- ,,Kannað verður hvort breyta þurfi lögum um heilbrigðisþjónustu og staða framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda skýrð.``

Meiningin er að taka á þessu með fullum þunga.

(Forseti (HBl): Ég vil minna á að samkvæmt 58. gr. þingskapa má eigi nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál.)