Brunavarnir og brunamál

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 18:33:18 (2591)

1999-12-08 18:33:18# 125. lþ. 40.1 fundur 244. mál: #A brunavarnir og brunamál# (brunavarnagjald) frv. 127/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[18:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni nokkuð árviss kunningi sem kemur yfirleitt í tengslum við fjárlagafrv. þar sem verið er að skerða tekjur af brunavarnagjaldi. Í þetta sinn er verið að skerða tekjurnar sem eiga að vera, ef brunavarnagjaldið skilar sér, um 100 millj. kr. en samkvæmt frv. er lagt til að það verði einungis 87 millj. sem renni til Brunamálastofnunar af þessu brunavarnagjaldi.

Lítið hefur farið fyrir umræðu um þetta mál þegar það hefur komið fyrir þingið en ég velti fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að staldra örlítið við varðandi þessa skerðingu vegna þess að fram hafa komið og komu fram fyrir nokkrum vikum, mig minnir að það hafi verið síðla sumars, ýmsar aðvaranir frá Brunamálastofnun um stöðuna að því er varðar brunavarnir. Ég held að þetta sé ekki svo mikill sparnaður fyrir ríkissjóð þegar við erum að tala um 13 millj. en gæti haft verulega að segja til að styrkja brunavarnir í landinu ef gjaldið fengi að skila sér að öllu leyti til brunavarna.

Ég minni á í þessu sambandi að í sumar kom fram það mat Brunamálastofnunar að brunavörnun í skólum hér á landi væri verulega áfátt og í skýrslu sem stofnunin lét vinna um brunavarnir í grunnskólum á landsbyggðinni kom fram að ástandið væri aðeins gott í 7--8% skólanna, sæmilegt í 41% og slæmt í 49% og óviðunandi í 2% tilvika. Brunamálastofnun hefur því sett út á eldvarnir í skólum og Brunamálastofnun gaf út skýrslu um brunavarnir þar sem hefur komið fram að tveir af hverjum þremur skólum hefðu ófullnægjandi brunavarnir.

Einnig kom fram að Eldvarnaeftirlitið segir ekki gerlegt að framfylgja athugasemdum stofnunarinnar þar sem ekki sé tekið tillit til bygginga sem reistar eru fyrir tíma brunareglugerða, eins og þar stendur. Mér finnst ástæða til að spyrja hæstv. umhvrh. við þessa umræðu hvort hún hafi eitthvað kynnt sér skýrslu Brunamálastofnunar og hvert sé þá álit hennar á því sem þar kemur fram og hvort hæstv. ráðherra hyggist bregðast við því sem kemur fram hjá brunamálastjóra um að brunavörnum sé verulega áfátt.

Síðan mætti spyrja ef hæstv. ráðherra hefur kynnt sér málið eða ráðuneyti hennar hvort eitthvað liggi fyrir um kostnaðinn við að koma brunavörnum í skólum í viðeigandi horf samkvæmt lögum og reglugerðum þar að lútandi. Eins vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi þá fyrir að gerð hafi verið úttekt á brunavörnum í leikskólum og ef svo er, hverjar þær niðurstöður eru.

Mér fannst ástæða til að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra við umræðuna þegar við erum að ræða frv. þar sem er verið að skerða, ekki mikið að vísu, tekjur til brunavarna og sem ég ítreka, herra forseti, að mundi muna verulega um til að styrkja brunavarnir í landinu en álit Brunamálastofnunar, eftirlitsaðilans, liggur fyrir um að brunavörnum sé verulega áfátt í skólum landsins.