Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 19:05:37 (2598)

1999-12-08 19:05:37# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[19:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði réttilega að stéttarfélögin, samtök launafólks, ættu ekki að hafa neitunarvald gagnvart Alþingi þegar lagasmíð væri annars vegar. Það er alveg rétt. Hér er löggjafinn. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar fjallað var um kjaramál eða málefni sem snerta launafólk sérstaklega þá hefur skapast sú hefð að leita sátta um niðurstöðuna. Alltaf þegar þetta hefur verið reynt, þegar sú leið hefur verið farin þá hefur árangurinn orðið eftir því. Þegar við náðum sátt á síðasta kjörtímabili um niðurstöðu í lífeyrismálum var árangurinn slíkur. En sérstaklega á þetta við þegar fjallað er um samskiptareglur þessara aðila. Á þessum lögum og samskiptareglum er verið að gera breytingar.

Þessar samskiptareglur voru festar í lög árið 1986. Þær urðu til eftir mikla samninga á milli ríkisvaldsins og heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Um þessar reglur ríkti sæmileg sátt, ekki endilega vegna þess að menn væru sammála öllu því sem í lögunum stendur heldur vegna hins, að menn höfðu komið að þessum lögum í samkomulagi. Þeir töldu sig skuldbundna til að fylgja þeim og ef menn vildu fá á þeim breytingar þá yrði leitað eftir samkomulagi um þær.

Nú vísar hæstv. ráðherra til þess að dómur hafi fallið atvinnurekandanum í óhag, að því er skilja má á máli hans, og þess vegna þurfi nú að breyta lögunum. Hann bætir því við að lagabreyting sú er hér um ræðir gagnist einnig stéttarfélögunum vegna þess að hópuppsagnir, sem nú á að kveða niður, grafi undan þeim.

Ég er alveg sammála því. Ég hef margoft gagnrýnt hópuppsagnir sem tæki í kjarabaráttu. Talsmenn heildarsamtaka opinberra starfsmanna hafa gert hið sama þótt menn hafi reynt að forðast alhæfingar og sleggjudóma og setja allar slíkar aðgerðir undir einn hatt því að það er rangt. Menn verða að spyrja hvers vegna slíkar aðgerðir eru til komnar. Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga. Nú féll dómur atvinnurekandanum í óhag og þá á að breyta lögunum. Það sem meira er er að í grg. með frv. er vísað til umrædds dóms, með leyfi forseta:

,,Niðurstaða dómsins kallar á að ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði breytt að þessu leyti til samræmis við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur, enda standa engin rök til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna.``

Engin rök standa til þess að mismunandi reglur gildi um opinbera starfsmenn og annað launafólk á vinnumarkaði hvað friðarskylduna snertir. En í þessari umræðu hefur ítrekað verið hamrað á nauðsyn þess að samræma lögin. Um það hafa heyrst raddir og kröfur frá aðilum á vinnumarkaði. En í hverju liggur meginmunurinn á lögum um opinbera starfsmenn annars vegar og vinnumarkaðinn að öðru leyti?

Í fyrsta lagi eru stórir hópar opinberra starfsmanna án verkfallsréttar. Það á t.d. við um lögreglumenn og um tollverði. Í öðru lagi býr verulegur hluti opinberra starfsmanna við takmarkaðan verkfallsrétt, t.d. starfsfólk heilbrigðisstofnana, þar sem skylt er að tryggja nauðsynlega þjónustu komi til verkfalls. Í þriðja lagi er stjórnvöldum óskylt að verða við lausnarbeiðni ríkisstarfsmanns eða að samþykkja uppsögn hans ef svo margir leita lausnar samtímis að til auðnar horfi um starfsrækslu viðkomandi stofnunar. Með öðrum orðum er hægt að framlengja ráðningu starfsmannsins ef til auðnar horfir í starfsstéttinni. Engar sambærilegar reglur takmarka rétt starfsmanna á almennum vinnumarkaði til að segja upp störfum sínum eða boða til verkfalla.

Því er furðulegt að menn skuli tala um þessi atriði á þann hátt sem gert hefur verið. Við þurfum að samræma þessar reglur en taka síðan á mjög afmörkuðum hluta þeirra. Út á það hefur gagnrýni samtaka opinberra starfsmanna gengið. Þeir vísa í fleiri atriði, ólík því sem eru á almennum vinnumarkaði. Það er t.d. mun torveldara fyrir opinbera starfsmenn að efna til verkfalls þar sem yfir 50% hlutaðeigandi þurfa að samþykkja slíkt á móti 20% á almennum vinnumarkaði. Ég er ekki að mæla gegn því að yfir helmingur félagsmanna greiði atkvæði með verkfalli. Mér fyndist fráleitt að ráðast í svo alvarlega aðgerð án þess að yfirgnæfandi meiri hluti væri þar að baki. En ég nefni þetta sem dæmi um hve mismunandi reglur eru hér við lýði og hve rangt og ósanngjarnt er að tala um Jón og séra Jón eins og stundum hefur verið gert og líkja stöðu opinberra starfsmanna við stöðu forréttindahópa. Það er rangt.

Þegar ljós varð sá ásetningur ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. að fara fram með þessa lagabreytingu leituðu fulltrúar samtaka opinberra starfsmanna eftir því við ríkisstjórnina og hæstv. fjmrh. um að ná samkomulagi um frekari breytingar á þessari reglugerðarsmíð í samræmingarátt, að gengið yrði inn á þá braut sem lagt er til í grg. með þessu frv. þar sem segir að engin rök séu til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna. Hér er væntanlega verið að tala um þær reglur sem gilda um stríð og frið, hvaða reglur skuli gilda um átök um kaup og kjör á vinnumarkaði. Hugmyndir um hvernig væri hægt að ná samkomulagi voru settar fram en því var öllu hafnað. Því var hafnað vegna þess að ríkisstjórninni lá á að keyra þessa afmörkuðu breytingu í gegn.

[19:15]

Hvað sem mönnum finnst um þessi lög eða þessa lagasmíð þá held ég að allir sanngjarnir menn hljóti að vera sammála um að hér sé ekki eðlilega að verki staðið. Þegar samtök launafólks óska eftir samstarfi um endurskoðun á þessum lögum, fallast jafnvel á að þessi breyting verði gerð núna en í samhengi við aðrar breytingar, þá er öllu vísað á bug. Þetta eru vinnubrögð, herra forseti, sem ekki ganga og eru mjög ámælisverð. Ég hef trú á því að ýmsir eigi eftir að tjá sig um þessa lagasmíð bæði á Alþingi og annars staðar, enda ber að skoða hana í því ljósi.

Ég held að það sé ekki leiðin til að tryggja samskipti á vinnumarkaði að ætla lögunum og reglugerðunum og lögregluvaldinu framkvæmdina og mótun farvegsins. Ég held að til þess að reglur af þessu tagi gangi upp, þá verði þær að byggjast á samkomulagi og að mönnum finnist farið fram af sanngirni þannig að menn vilji láta reglugerðarsmíðina og lögin ganga upp. Og það er mjög mikilvægt að þannig sé staðið að málum þegar smíðuð eru lög um verkföll og vinnudeilur.

Ég mun koma aftur að þessu máli í síðari ræðu minni, en læt máli mínu lokið að sinni.