Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 19:35:37 (2600)

1999-12-08 19:35:37# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[19:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar er fjallað um sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla. Þarna getur ekki verið um annað að ræða en hópuppsagnir.

BSRB og önnur stór stéttarfélög hafa óskað eftir og mælst til þess að samræmdar verði reglur og réttindi allra á vinnumarkaðnum um verkfallsrétt og önnur réttindi. BSRB hefur m.a. alltaf talað gegn hópuppsögnum. Það er ekki rétt leið í kjarabaráttu. En jafnframt því hefur BSRB hvatt til þess að gerðar verði breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem rýmka réttindi þeirra þannig að þeir búi eigi við lakara réttindakerfi en gerist á almennum vinnumarkaði því mikill munur er á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðnum. Það þarf að samræma reglur.

Hvenær eru uppsagnir manna hópuppsagnir? Það þarf að skilgreina. Ég tek sem dæmi heilbrigðisstofnanir þar sem starfsmenn hafa mjög takmarkaðan verkfallsrétt þegar hugsanlega er búið að semja um aðalkjarasamning eða grunn og komið er að aðlögunarsamningum. Þegar ekki nást samningar --- þetta eru kannski vinnustaðir með 5--15 manna hjúkrunarliði, ef sú stétt er tekin sem dæmi --- og starfsmenn gefast upp á að reyna að ná samningum og hætta án þess að það séu samræmdar aðgerðir, hvað þarf þá marga til þess að það sé túlkað sem hópuppsagnir? Það þarf ekki stóran vinnustað. Að vísu geta þessar heilbrigðisstofnanir af öryggisástæðum komið í veg fyrir að fólk fái að segja upp. Ég vil draga það inn í þessa umræðu að það þarf að fá skilgreiningu á því hvað hópuppsagnir eru. Hver eru mörkin? Það er ekki sama hvort um er að ræða 100 eða 200 manna vinnustað. Ef t.d. 50--70 manns segja þar upp þá er hægt að kalla það hópuppsagnir. Annað á við á litlum vinnustöðum sem eru út um allt land og sinna miklu öryggishlutverki.

Það þarf að fara mjög vandlega yfir þetta mál. Það má ekki taka réttindi af fólki án þess að horfa á heildarpakkann og leita eftir samræmingu við félög á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e. að það komi þá annað á móti. Það hefur enginn mælt með hópuppsögnum. Því miður hefur það þó kannski verið síðasta hálmstráið sem menn hafa gripið til. En stéttarfélög eða verkalýðsfélög hafa aldrei mælt með þessari aðgerð.

Ég vildi draga sérstaklega inn í umræðuna að þetta er mál sem má ekki flýta sér með. Það verður að ná sáttum um þessa lagagerð og bæta þá réttarstöðu opinberra starfsmanna á öðrum sviðum til þess að ná þarna einhverju jafnræði.