Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 08. desember 1999, kl. 19:57:39 (2603)

1999-12-08 19:57:39# 125. lþ. 40.2 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 125. lþ.

[19:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að undirskriftir eigi að vera marktækar. En gerir hv. þm. sér grein fyrir því að í mörgum tilvikum eru hópuppsagnir til komnar vegna þess að starfsfólkið telur að ekki hafi verið staðið við kjarasamninga, að kjarasamningar hafa ekki verið fullnustaðir? Það eru þessar alhæfingar sem ég ætla að leyfa mér að vara við, þ.e. að menn setji allar aðgerðir af þessu tagi undir einn hatt.

En hinu er ég alveg sammála hv. þm., að menn eiga að taka undirskriftir alvarlega og menn eiga líka að taka heiðursmannasamkomulag alvarlega. Þegar samtök launafólks gera samkomulag við ríkisvaldið, eins og gert var árið 1986 um þau lög sem einhliða er ráðist í að breyta hér með valdi og offorsi, á að þvinga hér í gegnum þingið, þá er verið að brjóta samninga eða samning. Eða eigum við að kalla það samkomulag? Þótt það sé alveg rétt sem hér hefur komið fram að afmarkað skoðað séu menn reiðubúnir að ræða þessa lagaklásúlu þá er þetta hið efnislega samhengi hlutanna.

Þess vegna mótmælum við því eindregið að þessi lög verði keyrð í gegnum þingið.