Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:04:56 (2634)

1999-12-09 20:04:56# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:04]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra staðfesta í svörum sínum áðan að hann vill brjóta niður bankakerfið þannig að það passi í ginið á kolkrabbanum, vegna þess að það kom fram að hann vill ekki setja reglur í útboðslýsinguna sem koma í veg fyrir að einn eða tengdir aðilar geti ekki í tilboðssölunni eignast þar allt fjármagnið sem setja á í tilboðið, eða 2 milljarða. Ég spyr: Er ríkisstjórnin sammála þessu hjá hæstv. ráðherra, t.d. forsrh. sem hefur talað hér fyrir dreifðri eignaraðild, vegna þess að tillaga hæstv. ráðherra stuðlar að samþjöppun valds? Og þetta gæti styrkt stöðu Íslandsbanka í hugsanlegum sameiningarviðræðum ef þeir mundu t.d. komast yfir allt þetta fjármagn, eða 2 milljarða.

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra: Hann talar um að það sé styrkur fyrir Búnaðarbankann að kaupa eignarhluta Landsbankans í tryggingafélögunum. Hæstv. ráðherra fer með meirihlutaeign ríkisins í þessum banka. Vill hann og mun hann stuðla að því að þessi kaup geti farið fram þannig að það sé hægt að styrkja stöðu Búnaðarbankans?

Að öðru leyti þakka ég ráðherra fyrir svörin sem voru skýr.