Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 09. desember 1999, kl. 20:08:31 (2637)

1999-12-09 20:08:31# 125. lþ. 41.1 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 125. lþ.

[20:08]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst er svar við síðustu spurningu hv. þm. Afstaða mín er ljós. Ég lýsti því hér áðan að sá vilji liggur fyrir í bankaráðum beggja bankanna og ég tel það vera rétta leið.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um Vátryggingafélagið og aðstoð Búnaðarbankans við að styrkja stöðu sína ef til þessa kæmi. En það er það ekki viðskrh. að hafa áhrif á að slíkt gerist. Það verður hins vegar að gerast þá með beinum viðskiptum milli Búnaðarbanka og Landsbanka ef til þess kæmi að vilji væri til slíkra viðskipta af hálfu beggja aðila. (JóhS: Og ráðherrann telur það skynsamlegt?) Ég lýsti því áðan í ræðu minni að ég tel skynsamlegt að einingarnar verði ekki mjög misstórar á þessum markaði þannig að einn aðili verði algjörlega með yfirráðandi stöðu. Þá verðum við líka að hafa það í huga, sem ég veit að hv. þm. er mér sammála um, að þá kemur auðvitað til þess að Samkeppnisstofnun mun skoða þá hluti ef einn aðili verður risi á markaðnum en aðrir mjög smáir. Það er eðlilegt að þá gildi samkeppnislögin um það. Nú vona ég að ég hafi svarað öllum spurningum hv. þm.