Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 14:15:32 (2690)

1999-12-10 14:15:32# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrsta spurningin var hvort ekki væri eðlilegt að ráðuneytið tæki viðtölin og kæmi með ramma til okkar. Ég vil ekki svara fyrir einhverja allsherjarreglu í þessu efni á þessari stundu, þetta er mál sem við þurfum að ræða. Í menntmrn. hefur ráðuneytið haft þó nokkurn hluta af þessari útdeilingu því langsamlega flest mál koma þar upp. Menn hafa því framselt nokkuð af þessu þangað. Ég endurtek að andinn í hv. þingmönnum hefur verið sá að halda í þetta, ég er enginn harðlínumaður í þeim efnum.

En ég vil ekki svara þessu öðruvísi á þessari stundu en að ræða þarf mjög alvarlega hvað Alþingi á að ganga langt í að útdeila til lítilla verkefna og snúa sér frekar að meginlínum. Ég er alveg til viðræðu um slíka hluti.

Það er alveg ljóst að allir eiga að telja fram til skatts, hrossaeigendur sem aðrir, ég er þeirrar skoðunar. Fjárln. fer ekki með það nema fjárveitingar til skattstofa og ríkisskattstjóra en auðvitað ber öllum að telja allar tekjur fram, það er alveg ljóst. Þar með er ég ekkert að segja eða dæma hrossaeigendur í því efni en þetta er bara skoðun mín.

Síðan er þetta stóra mál, hvernig við eigum að fylgja eftir þeim ákvörðunum í fjárlagafrv. varðandi stofnanir ríkisins. Það eru ekki eingöngu heilbrigðisstofnanir sem hér eru undir heldur eru fleiri stofnanir sem hafa farið fram úr. En ég verð að fara í það seinna í umræðunni af því að tími minn er búinn.