Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 15:20:21 (2696)

1999-12-10 15:20:21# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að vera með þannig stjórnkerfi að hvetji til frumkvæðis á öllum stigum, frumkvæðis og hugmyndaflugs og nýjunga. Við megum heldur ekki búa til stjórnsýslukerfi sem getur slegið á frumkvæði eða það að hægt sé að bregðast hratt við nýjungum. Frumkvæðið kemur sem betur fer oftast líka úr grasrótinni, frá því fólki sem er að vinna á vettvangi og allt til okkar háttvirtu löggjafarsamkomu. Ég er ekki á móti því að vinnubrögð séu vönduð þannig að hægt sé að meta kostnaðarliði og slíkt. En ég vara við því að pólitískt vald, pólitískar aðgerðir og pólitísk sýn, séu framseld til framkvæmdarvaldsins og m.a. þess vegna vara ég við oftrú á reiknilíkönum. En ég styð vönduð og framsýn vinnubrögð.