Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:07:44 (2707)

1999-12-10 16:07:44# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GIG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Gunnar Ingi Gunnarsson:

Herra forseti. Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki átt fulltrúa í fjárln. sem kunnugt er. Þingmenn flokksins fengu brtt. meiri hlutans ásamt grg. í sínar hendur í morgun og gærkvöldi. Því hefur ekki gefist langur tími til að skoða þau plögg. Hins vegar höfum við í Frjálslynda flokknum lagt fram tillögur hér á hinu háa Alþingi til gagngerra breytinga á því frv. sem hér liggur fyrir varðandi hag ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega ásamt með breytingum á sjúkradagpeningum. Þeir þættir koma vel fram í þáltill. sem að við höfum einnig lagt fram. Ég mun koma, herra forseti, að þeim þáttum síðar.

Þegar litið er yfir frv. sem hér er til umræðu þá höfum við á þeim stutta tíma sem gefist hefur helst fundið þrjá megingalla á því. Í fyrsta lagi er að miklu leyti horft fram hjá þeirri þenslu sem ríkir í íslenska hagkerfinu í því frv. sem liggur fyrir. Okkur þykir nauðsynlegt að beita hagstjórnartæki eins og fjárlögum til að mæta slíkri þróun. Í öðru lagi söknum í Frjálslynda flokknum þess sérstaklega að hvergi er að finna neitt í frv. sem væri til þess að bæta kjör öryrkja og aldraðra í því góðæri sem talið er að ríki á Íslandi í dag. Í þriðja lagi teljum við að frv. taki ekki á þeirri byggðaröskun sem margumtöluð er hér á landi. Það er ekki gripið til aðgerða varðandi þann vanda, hvorki á orsökum né afleiðingum byggðaröskunarinnar.

Við teljum að horft sé fram hjá því að núverandi fiskveiðistjórn og fyrirkomulag hennar eigi þar afskaplega stóran hlut að máli. Sú fiskveiðistjórn sem er við lýði felur jafnframt í sér gífurlega skuldasöfnun og mjög alvarlegt flæði fjármagns úr greininni sem íslensk þjóð mun síðar þurfa að standa frammi fyrir. Við vitum einnig að viðskipti með aflakvóta valda aukinni eftirspurn eftir lánsfé. Það tengist auðvitað þessu frv. og þar með leiðir það aftur til aukinnar þenslu. Í stuttu máli, varðandi fiskveiðistjórnarþáttinn, þá vitum við að í sjálfu sér eyðir kvótabraskið íslenskri byggð. Við söknum þess að ekki sé hægt að finna í frv. nein þau atriði sem taka á þessu alvarlega máli.

Ekki er um það deilt að nauðsynlegt er að hafa aðhald. Ríkisstjórnin kveðst sjálf boða aukið aðhald með fjárlögunum en það er spurning hvort það sé aukið aðhald þegar fyrirsjáanlegt er að á fyrsta heila ári þessa kjörtímabils verði ríkisútgjöld 20 millj. kr. meiri en á öllu síðasta ári á liðnu kjörtímabili.

Frv. ríkisstjórnarinnar til fjárlaga og fjáraukalaga stórauka útgjöld og eru beinlínis þensluhvetjandi eins og komið hefur fram. Þörf er á meiri tekjuafgangi en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Einnig er alvarlegt að með brtt. meiri hlutans minnkar áætlaður tekjuafgangur ríkissjóðs enn frekar frá upphaflegu frv. Brtt. meiri hlutans nema nú um 3,6 milljörðum kr. Að öllu óbreyttu verður tekjuafgangur ríkissjóðs um 11,4 milljarðar. Seðlabankinn telur hins vegar að tekjuafgangur frv., 15 milljarðar, feli ekki í sér nægjanlegt aðhald. Þá vaknar spurningin um hvort menn neyðast til að grípa til aukinnar skattheimtu síðar meir í kjölfar fyrirsjáanlegra launahækkana á vinnumarkaði. Það er spurning, herra forseti, sem við verðum að velta vöngum yfir. Verðbólgan sem mælist nú um 5%, að mér skilst, hlýtur í náinni framtíð að kalla á önnur viðbrögð en þau sem fram koma í þessu frv.

[16:15]

Þess ber einnig sérstaklega að geta að rekstur heilbrigðisþjónustunnar hér á landi hefur valdið okkur í Frjálslynda flokknum miklum áhyggjum. Við urðum vitni að því fyrir stuttu að sá rekstur kallaði á 2.300 millj. til við það sem áður hafði verið lagt til aukalega í þann málaflokk vegna viðvarandi hallareksturs hjá því ráðuneyti. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að á meðan verið er að dæla peningum af slíkri stærðargráðu inn í heilbrrn. skuli ekki vera kallað á neinn til ábyrgðar. Kannski er það þannig að ríkisstjórnin í heild sinni telur sig bera ábyrgðina á þessum ósköpum, en a.m.k. tel ég að maður hefði mátt búast við annars konar viðbrögðum í slíkri stöðu meðal annarra siðmenntaðra þjóða. Greinilegt er af þessu að dæma að okkar mati að hæstv. heilbrrh. hafi með engu móti getað haldið utan um þann rekstur sem ráðherrann hefur borið ábyrgð á og hlýtur að vera sá aðili sem hér ber mesta ábyrgð.

En eins og ég minntist á í upphafi hefur Frjálslyndi flokkurinn staðið að því að leggja fram brtt. við frv. til fjárlaga og ásamt með þeim lagt einnig fram þáltill. þar að lútandi og langar mig til þess, herra forseti, að koma inn á þau mál.

Brtt. okkar eru í reynd afskaplega einfaldar. Brtt. varða í þessu skrefi lífeyristryggingar hér á landi og sjúkratryggingar. Frjálslyndi flokkurinn hefur frá upphafi, á sinni stuttu ævi, gert sér grein fyrir því að staða ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega á Íslandi, er a.m.k. sumum afskaplega erfið og algjörlega óviðunandi. Einnig hafa þingmenn flokksins gert sér grein fyrir því að þáttur eins og sjúkratryggingar, sjúkradagpeningar er með öllu óviðunandi eins og þeim er fyrir komið í íslensku velferðarkerfi. Þess vegna leggjum við til að tekjutryggingaþáttur ellilífeyrisþega verði hækkaður í áföngum um 1.141 millj. á ári á verðgildi dagsins í dag og tekjutryggingaþáttur ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega samanlagt verði hækkaður sem þessu nemur þannig að á fjögurra ára tímabili náist það markmið að hækka hámarksgreiðslur til þessara hópa úr almannatryggingum um rúm 18%. Við teljum að þannig sé vandamálið nálgast með mikilli varúð og farið afskaplega hægt í það að ná þessu sjálfsagða marki.

Ég ætla að koma aðeins betur inn á það síðar hvernig við höfum reiknað út þá þörf sem hér kemur fram. Við gerum ráð fyrir því að sjúkradagpeningar hækki úr 225 millj. í 675 millj. Það sem slík breyting gerir er að hækka sjúkradagpeninga á mánuði úr rúmum 20 þús. í rúm 60 þús. kr. Eins og kemur fram í tillögu okkar förum við nákvæmlega út í það hvernig við teljum að hægt sé að ná þeim fjárhæðum sem þarf til þess að kosta þessar nauðsynlegu breytingar. Það sem við leggjum til er að kostnaðinum sem nemur á fyrsta árinu um 1.816 millj. verði dreift sem jafnast á axlir sem flestra. Það hlýtur að vera eðlileg krafa í fyrsta lagi að gera þær breytingar á kjörum lífeyrisþeganna sem ég sagði frá og mun lýsa betur síðar, og auka sjúkradagpeninga með þeim hætti sem ég lýsti áðan. Það hlýtur að vera eðlilegt að menn séu tilbúnir að standa saman og axla þá byrði og dreifa byrðinni sem jafnast þannig að ekki raskist það sem unnið hefur verið í við undirbúning þessa frv. Þess vegna leggjum við til að 0,5% lækkun verði á útgjöldum allra ráðuneyta og auk þess verði um 12% lækkun á þeim þáttum er lúta að vegagerð í landinu sem varða fyrst og fremst nýframkvæmdir og viðhald. Við teljum að þannig væri verið að vinna með ábyrgum hætti og benda á raunverulegar leiðir þar sem hægt er að finna fé til þess að borga þær nauðsynlegu breytingar sem við leggjum til.

Með þessum brtt., herra forseti, sem við höfum lagt fram, höfum við lagt fram till. til þál. um réttarstöðu örorku- og ellilífeyrisþega. Þar kemur í fyrsta lagi fram að það sé ætlun okkar að bæta stöðu þeirra örorku- og ellilífeyrisþega sem byggja framfærslu sína að mestu eða öllu leyti á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Við viljum gera það með því, herra forseti, að hækka tekjutryggingarhluta lífeyrisgreiðslna almannatrygginganna um jafnvirði 1.141 millj. kr. árlega í fjögur ár eins og áður sagði, frá og með næsta ári. En einnig kemur fram í okkar þáltill. að við viljum bæta réttarstöðu lífeyrisþega almannatrygginga sem búa í vígðri sambúð með því að fella niður allar tengingar lögbundins lífeyrisréttar við tekjur maka. Kem ég nánar að því atriði á eftir.

Varðandi þá örorku- og ellilífeyrisþega sem hér eru til umræðu er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við erum að tala þarna um ákveðinn markhóp. Við erum ekki að leggja til að þessi hækkun sem verður á kjörum lífeyrisþeganna verði jöfn yfir línuna. Við reynum að finna leið til að grípa utan um þá, fyrst og fremst og helst sem eru í mikilli klípu. Það er þannig, herra forseti, að það eru fyrst og fremst hinir ört vaxandi lífeyrissöfnunarsjóðir starfsgreina hér á landi sem munu tryggja þorra landsmanna ákjósanlegt fyrirkomulag lífeyrismála í náinni framtíð. Þetta gildir bæði um elli- og örorkulífeyri. Það hefur verið áætlað að á næstu 10--15 árum nái þetta fyrirkomulag svo að segja fullum þroska og þar með muni Ísland skipa sér í hóp þeirra þjóða sem eru á toppi heimslistans varðandi lífeyrismál. Hins vegar segir stöðumat dagsins í dag okkur að þúsundir Íslendinga séu í mismunandi miklum erfiðleikum með lífeyri sinn og margir hverjir búi raunar við sára fátækt. Þetta fólk er í raun og veru statt milli tveggja kerfa. Það byggir flest afkomu sína að mestu eða öllu leyti á lífeyrisgreiðslum almannatryggingakerfisins en eins og menn vita þá eru þar hámarksgreiðslur eitthvað um 66--68 þús. kr. á mánuði. Við erum að tala um fólk á ýmsum aldri. Hér erum við að tala annars vegar um ellilífeyrisþega, sem hafa þegar skilað þjóðfélaginu drjúgu ævistarfi og lagt í hendur okkar, afkomendanna, undirstöður hins íslenska velferðarkerfis en hefur sjálft misst af velferðinni. Þessa fólks er oft minnst í hátíðaræðu á tyllidögum. En þetta fólk hefur gleymst í því skipulagi sem við höfum á íslensku velferðarkerfi í dag. En við erum einnig að ræða um leiðréttingu á kjörum fólks sem er ungt að aldri en samt öryrkjar. Fólks sem hefur af ýmsum ástæðum annaðhvort misst heilsu og starfsorku eða aldrei fengið tækifæri til þess að vera virkir þjóðfélagsþegnar. Meðal þessa unga fólks er að finna fátækustu einstaklinga hins íslenska þjóðfélags. Fólks sem aldrei hefur fengið tækifæri til þess að spjara sig af sjálfsdáðum og sem hefur verið haldið með gölluðu kerfi í viðvarandi fátækt, oft með tilheyrandi tjóni á sál og líkama. Það er fyrst og fremst þetta fólk sem við erum hér að fjalla um.

[16:30]

Efnahagsástand þjóðarbúsins í dag gefur okkur tækifæri til að koma á löngu tímabærum lagfæringum. Ekkert mælir gegn því að það verði gert. Þess vegna leggjum við til, herra forseti, að tekjutryggingarhluti lífeyrisgreiðslanna hækki sérstaklega um u.þ.b. 50% samanlagt á næstu fjórum árum. Við höfum reiknað út að kostnaðurinn við þá breytingu sé u.þ.b. 4.565 millj. og erum tilbúnir að dreifa þeirri upphæð á fjögur ár. En hvað þýðir þessi 50% hækkun á tekjutryggingarþætti? Það þýðir ekki meira en rúmlega 18% hækkun á hámarksgreiðslunum eins og áður hefur verið sagt og gerir ekki meira en að lagfæra þann halla sem hefur skapast hjá þessu fólki í samanburði við almenna launaþróun á íslenskum markaði. Ég, herra forseti, sem nýliði á Alþingi trúi því ekki þegar ég stend frammi fyrir því að ekki náist skilningur og vilji til þess á Alþingi Íslendinga í dag að rétta því fólki hjálparhönd sem hér hefur verið rætt um með þeim hætti sem við leggjum til. Það fólk, sem hefur verið rætt um, er ekki skussar þjóðfélagsins sem safna skuldum með kreditkortaviðskiptum eða yfirdrætti í bönkum. Það fólk, sem hér er verið að ræða um, er fólk sem á ekki fyrir nauðþurftum og ég tel að því muni fylgja mikil ábyrgð að fella till. okkar án þess að koma með aðrar sambærilegar eða helst betri í staðinn. Ég geng út frá því að fólk muni fylgjast með afgreiðslu þessara mála á þinginu og stilla niðurstöðu málsins upp við hliðina á því sem sagt var fyrir síðustu kosningar. Ég trúi því að fólk muni gá að því hvort þingmenn, hvort stjórnmálamenn, hafi þegar byrjað að gleyma hópum í þjóðfélaginu þetta snemma á kjörtímabilinu.

Herra forseti. Í tillögum okkar leggjum við einnig til að sjúkradagpeningar verði hækkaðir. Ég hef áður komið inn á það á hinu háa Alþingi hvernig staða fólks er í íslensku þjóðfélagi sem á þann eina rétt í veikindum sínum að fá greidda sjúkradagpeninga. Eins og ég hef áður sagt eru fullir sjúkradagpeningar í dag á Íslandi um 20.800 kr. á mánuði. Ég hef margoft orðið vitni að því að ungt fólk hér á landi hefur í neyð sinni, veikindum sínum, þurft að standa uppi með þá einu aðstoð úr íslenska almannatryggingakerfinu. Í öllum tilfellum sem ég þekki til hefur það verið slíkt áfall fyrir fólk að standa frammi fyrir þessum veruleika að það hefur ekki viljað trúa sínum augum og eyrum vegna þess að fólk sem lendir í þessari klípu upplifir sjúkradagpeningana sem einhvers konar leikrit, einhvers konar vísi að aðstoð, eitthvað sem er svo óraunverulegt að það vill ekki trúa því að þetta sé veruleiki í íslensku þjóðfélagi í dag. 20.800 kr. gera lítið sem ekki neitt í þeirri neyð sem skapast þegar ungt fólk verður óvinnufært og stendur frammi fyrir því að þurfa á aðstoð að halda. Það sem við gerum hér er að leggja til að þessi upphæð þrefaldist. Við gerum okkur grein fyrir því að sú þreföldun dugir ekki til framfærslu (Gripið fram í.) en við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að það er sem betur fer þannig að það er hámark eitt ár sem fólk stendur frammi fyrir því að þurfa að taka við upphæðinni 20.800 kr. Þótt ekki væri farið lengra en að þrefalda upphæðina vitum við að það yrði a.m.k. til hjálpar á því tímabili sem þetta stendur. Þetta eru nokkrir mánuðir og hámark eitt ár ... (PHB: 30 sjúkrasjóðir.) (Gripið fram í.) Ég er alveg viss á því og ég hef þá trú á íslenskum alþingismönnum að ef þeir setja sig almennilega inn í það mál sem hér er verið að ræða um, íslenska sjúkradagpeninga í desember 1999, þá skilja þeir vandann. Ég er alveg viss um að innst inni stendur löngun til þess að betrumbæta það eymdarástand sem ríkir í íslenska velferðarkerfinu að þessu leyti. Ég trúi því líka og ég verð að trúa því að menn geri sér grein fyrir því að þessu verðum við að breyta.

Herra forseti. Fyrir utan þau atriði sem ég hef þegar nefnt komum við inn á það í þeirri þáltill. sem fylgir þessum brtt. að eðlilegt sé að Alþingi taki þegar ákvörðun um að bæta réttarstöðu þeirra lífeyrisþega almannatrygginga sem búa í vígðri sambúð með því að fella niður allar tengingar lögbundins lífeyrisréttar þeirra við tekjur maka. Við vitum, herra forseti, að íslenska almannatryggingakerfið er tryggingakerfi velferðarsamfélags þar sem sérhver einstaklingur kaupir sér í raun grunntryggingu í gegnum skattkerfið. Rétturinn til lífeyris er einstaklingsbundinn. Auðvitað getur hið opinbera ekki skert tryggingarétt neins manns á grundvelli hjúskaparstöðu hans. Það er fráleitt. Það er því ekki verjandi með neinum hætti að tengja réttarstöðu lífeyrisþega tekjum maka hans.

Eins og hv. þm. vita er þetta mál fyrir dómstólum hér á landi. Spurningin er hvort það sé vilji Alþingis að breyta einungis mannréttindamálum, réttarstöðu Íslendinga, vegna annaðhvort tilmæla frá Evrópu eða dómsúrskurða sem eru sendir hingað til að kenna mönnum innan þessara veggja að standa sig betur. Er það þannig sem menn vilja hafa hlutina, innflutt mannréttindi, annaðhvort úr dómstólum eða frá Evrópu? Ég held að tími sé kominn til fyrir hv. Alþingi að hafa frumkvæði í þessum efnum.

Við höfum látið reikna út að það muni kosta á ári u.þ.b. 360 millj. að lagfæra þessa réttarstöðu og gera hana eðlilega. Í heildardæminu er það auðvitað hégómi. Auðvitað er ekki hægt að leggja verðmætamat á mannréttindi. En þetta atriði er þess eðlis að Alþingi verður að taka ákvörðun í stað þess að láta fyrirskipunina koma í pósti. Hins vegar er hér lagt til að þessi breyting taki ekki gildi fyrr en á næsta ári vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að það mun taka töluverðan tíma fyrir Tryggingastofnun ríkisins að átta sig á því hverjir fá skertan lífeyri vegna þessa atriðis og það þykir eðlilegt að taka tillit til þess.