Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 16:48:03 (2710)

1999-12-10 16:48:03# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[16:48]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég býst við að allir geri sér grein fyrir því að breytingar á stjórn fiskveiða fara ekki í gegnum fjárlagafrv. Ég get verið sammála hv. þm. um að þar mætti ýmsu breyta. Það á ekki heima í þessu frv., sama hvað menn lesa það vandlega þá finnst ekki stafur þar um breytingu á stjórn fiskveiða.

Ég held að Frjálslyndi flokkurinn og forustumenn hans hefðu gott af að fara eina rispu um landið og heyra í landsbyggðarfólki. Ég held að það sé samdóma álit fólks á landsbyggðinni að samgöngur skipti meginmáli. Það er sama hvar maður kemur, alls staðar knýja menn á um framkvæmdir í samgöngumálum. Svo kemur Frjálslyndi flokkurinn og leggur til að skerða framlög til samgöngumála um rúm 10% og hv. þm. segir að það skipti ekki sköpum. Ég ætla bara að vona að félagi hans, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vinur minn, segi ekki fólkinu á Vestfjörðum að ekki skipti sköpum þó dregin séu saman framlög til vegamála. Ég er hræddur um að fylgi hans dali eitthvað ef hann ætlar að halda því fram.

Annað mál sem ríkisstjórnin er með á prjónunum, stærsta einstaka byggðamál sem rekið hefur á fjörur Alþingis í háa herrans tíð og er til afgreiðslu í næstu viku, er Fljótsdalsvirkjun, staðfesting á því að Landsvirkjun megi hefja framkvæmdir þar þannig að hægt verði að reisa álver á Reyðarfirði. Ég skora á þingmenn að fara austur á firði og heyra hvað fólkinu finnst. Þetta er mál málanna fyrir Austfirðinga til að rífa þann landsfjórðung upp úr því að vera láglauna- og fólksflóttasvæði. Hver var afstaða Frjálslynda flokksins í því máli? Hann var á móti því við fyrri umr. og gekk í eina sæng með vinstri grænum, svo gæfulegt sem það er.