Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:17:20 (2721)

1999-12-10 17:17:20# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Enn fjöllum við um fjárlög og breytingartillögur hv. fjárln. við þau lög. Hér er um að ræða þriggja mánaða gamlar áætlanir því fjárlög voru lögð fram 1. október. Það eru reyndar bara tveir mánuðir síðan en ég reikna með því að þetta hafi nú legið fyrir einum mánuði áður. Við erum því að tala um þriggja mánaða gamlar áætlanir. Og það kemur í ljós að það virðist vanta, eða það hefur verið bætt við 3.639 millj. kr. Áætlanir hafa þá verið rangar eða aðrar hjá hv. fjárln. en hjá ráðherrum og ríkisstjórn. Þetta eru u.þ.b. 30 þús. kr. á hvern einasta vinnandi mann og vona ég að hv. fjárln. geri sér grein fyrir því að hún er að leggja 30 þús. kr. á hvern vinnandi mann. Af þessari tölu fá sjúkrastofnanir um 2 milljarða. Það eru mjög góð áform hér í upphafi nál. um það hvernig eigi að bregðast við þessum vanda. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

,,Ekki var brugðist við hallarekstrinum á árinu þrátt fyrir skriflega áréttingu heilbrigðisráðuneytisins um nauðsyn þess að stofnanir héldu útgjöldum sínum innan fjárheimilda.``

Síðan stendur:

,,Ljóst er að til að rekstur allra sjúkrastofnana verði innan fjárheimilda þarf meira til en fjárframlög úr ríkissjóði. Framlögin eru veitt með þeim skilyrðum að gerðir verði samningar við stjórnendur og að tekið verði á fjármálastjórn stofnana. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að þessar fjárveitingar verði felldar niður í fjáraukalögum ársins 2000.``

Þetta stendur reyndar einnig á síðu 18 undir heilbrrn.

Þarna á sem sagt að fara að taka á og svo virðist sem hv. fjárln. ætli sér að skuldbinda Alþingi á næstu haustdögum til þess að taka þetta til baka. Nú er það svo að Alþingi ákveður þetta og meira að segja Alþingi þess tíma. Ég get því ekki séð að það sé hægt að skrifa að gert verði ráð fyrir að þetta verði fellt niður úr fjáraukalögum. En markmiðið er gott.

Ég spurði hv. formann fjárln. að því í andsvari hvað gerist ef farið er fram úr og engir samningar gerðir. Hvað þá? Ég hef ekki enn þá fengið svar við því. (Gripið fram í: Hvað gerist ef ...?) Hvað gerist ef stofnanirnar fara rýmilega fram úr fjárlögum og ekki er gerður samningur? Og hvað svo? (Gripið fram í: Ef þeir fara fram úr ... ) Hvað gerist svo? Þetta er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast. Hingað til hafa verið sett lög um það, fjárlög, en það er ekki farið að þeim. Svo er fyllt upp í allar holur sem myndast hafa. Ég held því að það þurfi að ganga lengra. Það þarf í rauninni að gera starfssamninga við forstöðumenn þessara stofnana þar sem hreinlega kemur fram að þeir bara hætti sjálfkrafa ef þeir ekki gera samning eða halda sig innan ramma fjárlaga.

Herra forseti. Við megum til með að tala um Alþingi og hlut þess. Það er mjög lítil umræða um Alþingi. Hver skyldi eiga að hafa eftirlit með Alþingi? Í fjárlögum er gert ráð fyrir 1.213 millj. til reksturs Alþingis. Hér er bætt um betur, 139,5 til viðbótar. Það eru sem sagt um 1.350 millj. sem Alþingi á að kosta, einn milljarður og þrjú hundruð og fimmtíu milljónir. Það eru 2 millj. á hvern þingmann. Rekstur Alþingis kostar 2 millj. --- fyrirgefið, ég er að rugla hérna --- það eru 20 millj. á hvern þingmann. Hér er gert ráð fyrir því að farið verði út í gagngerðar breytingar á innréttingum í húsnæði sem Alþingi hefur tekið á leigu á 2. hæð í Austurstræti 10A, fyrir 98 millj. Við erum auk þess með áætlun um að byggja hérna skála við hliðina á sem ég vissi síðast að kostaði 400 millj. Þetta er skáli sem er ekkert annað en einn matsalur að því að mér sýnist og skilst. Nú er fullt af matsölum hérna í kring, Hótel Borg o.s.frv. og örugglega hægt að gera samninga við þá aðila bara fyrir vextina af þessari upphæð. (Gripið fram í: Bæjarins bestu.) Bæjarins bestu, er kallað hérna fram í (JónK: Og Svarta pannan.) Og Svarta pannan. Það eru margir veitingastaðir hér í nágrenninu sem hægt væri að gera samning við. Og fyrir vextina af þessari upphæð gætu þingmenn eflaust borðað ókeypis á þessum stöðum. Ég legg til, herra forseti, að hætt verði við þetta ævintýri hérna fyrir vestan, sem er reyndar bara byrjunin á miklu stærra ævintýri sem ég hef einhvern tímann heyrt að kosti nálægt 5.000 millj. (Gripið fram í.) En ég geri sérstakar athugasemdir við þessar 98 millj. til gagngerrar innréttingar á húsnæðinu. Það er jú ein og hálf milljón á hvern þingmann. Ég vil fá nánari skýringu á því svona við tækifæri.

Herra forseti. Í brtt. hv. meiri hluta fjárln. koma hross víða við. Þau koma við sem menntamál, hrossin eru menntamál. Þau koma fram sem landbúnaðarmál og það skil ég. Það skil ég alveg. En þau koma líka fram sem samgöngumál. (Gripið fram í: Þau eru samgöngutæki.) Já, þau voru það einu sinni, fyrir svona hundrað, tvö hundruð árum, en varla mikið lengur. Svo koma þau fram sem iðnaðarmál og þá varð ég mikið hissa. (Gripið fram í.) Eru hrossin farin að prjóna, eða hvað? Ég fékk svarið við því að þetta væru samtals 50 milljónir. Ég spyr, herra forseti: Hvað er eiginlega að gerast með hrossin á Íslandi? Hvað er verið að gera við hrossin? Þau eru farin að læra, komin í skóla og farin að stunda iðnað.

Nú hefur komið upp mikið svindlmál í sambandi við útflutning hrossa til Þýskalands. Þar hafa hrossin verið vanmetin. Skyldu þau hafa verið rétt metin í framtölum á Íslandi? Skyldu þeir hafa verið metnir hér á Íslandi, gæðingarnir á milljónir og sæmilega góðir klárar á 200--300 þús. kall, öll þessi hross? Það munar aldeilis í eignarskattinum.

Herra forseti. Undir forsrn. er talað um framlag til Vesturfaraseturs á Hofsósi. Það framlag er aukið tímabundið um 22 millj. og það kemur fram að 86 millj. eigi að fara í Vesturfarasetur á Hofsósi. Hvað er eiginlega að gerast? Hvernig skilar þetta sér? Hvenær sjá skattgreiðendur þessar 86 millj. aftur? Það fara 86 millj. til Vesturfaraseturs á Hofsósi. Það má aldeilis vera hár aðgangseyririnn þar, eða mikill ferðamannastraumurinn og hagnaðurinn af ferðamennskunni í ríkissjóð til þess að þetta borgi sig. (Gripið fram í.)

Svo er gert ráð fyrir því sem hét Suðurlandsskógar en heitir núna Landshlutabundin skógrækt. Nú heita þeir víst Vesturlandsskógar og ég veit ekki hvað og hvað. Þarna er fjárveitingin hækkuð --- nú bið ég hv. þm. að halda sér --- fjárveitingin er hækkuð úr 40 millj. í 99 millj. til að rækta skóg. Ég vil sjá áætlanir um það hvernig þetta skilar sér í ríkissjóð einhvern tímann.

Hér er náttúrlega mikið plagg á ferðinni. Ég þarf að fletta í gegnum það, herra forseti. Næst er það síða 22. Þar er talað um Heilsugæslustöðina í Lágmúla í Reykjavík. Þar er gert ráð fyrir tillögu um að hækka launafjárveitingu til hennar. Þetta er einkarekin stöð og allt gott um það að segja. En hún virðist hafa gleymt sér því að nú á að fara að millifæra til hennar aftur í tímann miklar upphæðir samkvæmt kjarasamningum, aðlögunarsamningum og úrskurði kjaranefndar og það eru 20,8 millj. Hún fékk ekki launagreiðslur sínar úr launabókhaldi ríkisins og það var ekki lokið við endurmat á launakröfunni fyrr en við framlagningu fjárlagafrv. Mér finnst að það eigi að gera kröfur til einkarekinna fyrirtækja um að þau standi sig betur en þetta.

Síðan er eitt atriði sem er nokkuð mikilvægt. Það er gert ráð fyrir því virðist vera víðast hvar í fjárlagafrv. um vegagerð, að fjárveitingar verði þær sömu og í fyrra. En fjárln. er rausnarleg. Hún hækkar allt um 3%. Þetta eru fleiri hundruð millj. sem hún hækkar framlög til vegagerðar umfram fjárveitingar sem fjmrh. lagði til. Ég veit ekki alveg hvers vegna. En þetta kostar skattgreiðendur náttúrlega lifandi býsn. Og þarna er enn verið að seilast í vasa þeirra. Það virðast vera mjög rúmir vasar til að seilast í.

Það sem einkennir þetta fjárlagafrv., og er meira að segja verra en verið hefur, herra forseti, er alls konar smotterí. Það liggur við að þetta sé brandari oft og tíðum.

[17:30]

Undir utanrrn. er sótt um 0,3 millj. kr. til að standa straum af væntanlegum kostnaði við þátttöku Íslands í starfi Norður-Suðurstofnunar Evrópuráðsins, 300 þúsund kall. Hvað er eiginlega verið að móðga Alþingi með svona smátölum? Hví að ómaka Alþingi með að taka ákvörðun um svona upphæðir?