Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 17:49:07 (2726)

1999-12-10 17:49:07# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[17:49]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í mótun velferðarkerfisins og lagasetningu tengda því fylgjum við því miður oft og tíðum ákveðinni, ég vil nota erlent orð, útópíu eða draumsýn eða draumalandi. Við viljum gera vel við alla og afleiðingin er sú að í lagasetningu um velferðarkerfið er oft og tíðum miklu meiru lofað en hægt er að standa við. Það held ég að sé vandinn. Ég held að hv. þingmenn ættu að taka sér tak og gera lögin um velferðarkerfið skilvirkari, markvissari og raunhæfari, þannig að við séum ekki alltaf að búa við einhverja útópíu, sem ekki stenst, sem verður til þess að starfsmenn heilbrigðiskerfisins, sjúkrastofnana og út um allt, menntastofnana og hvar sem er standa alltaf frammi fyrir því að þeir eru með tvenns konar lög. Annars vegar lög sem segja að þeir eigi að gera svo og svo mikið og nánast ótakmarkað fyrir alla og svo hins vegar fjárlög sem segja: Þið fáið ekki nema ákveðinn pening í þetta. Þetta er vandinn. Ég held að við verðum að komast niður á jörðina, verða raunhæfari, semja lög um velferðarkerfið sem eru bæði skilvirkari og raunhæfari, nær raunveruleikanum því að raunveruleikinn er líka til, herra forseti.