Fjárlög 2000

Föstudaginn 10. desember 1999, kl. 22:49:17 (2774)

1999-12-10 22:49:17# 125. lþ. 42.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 125. lþ.

[22:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla fylgja úr hlaði brtt. sem við þingmenn Samfylkingarinnar leggjum fram við 2. umr. fjárlaga. Eins og fram hefur komið í máli félaga minna í Samfylkingunni sem hafa talað hér á undan mér, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, Einars Más Sigurðarsonar og Sigríðar Jóhannesdóttur, þá hvetjum við til ráðdeildar í ríkisrekstrinum. Það kemur glöggt fram í nál. því sem minni hluti fjárln. hefur mælt fyrir og lagt fram við þessa umr.

Eins og einnig kemur fram í nál. minni hlutans þá kemur verulega á óvart að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki sjá sóma sinn í að veita meira fé til velferðarkerfisins, sérstaklega í kjölfar þeirrar bókar sem Tryggingastofnun ríkisins lét gera um velferðarkerfið, sem Félagsvísindastofnun og prófessor Stefán Ólafsson unnu fyrir Tryggingastofnun. Sú bók er mikill áfellisdómur yfir íslenska velferðarkerfinu eða því hvernig farið hefur verið með það. Maður hefði nú talið fulla ástæðu til að farið yrði í að setja verulega fjármuni inn í velferðarkerfið, sérstaklega þar sem vitað er að fyrir liggja upplýsingar um að nokkuð stór hópur fólks á Íslandi býr við mjög kröpp kjör. Þess vegna kemur það á óvart nú í góðærinu að ríkisstjórnin skuli ekki sjá sóma sinn í að setja fjármuni í að styrkja innviði velferðarkerfisins og bæta kjör þessa hóps.

Við þingmenn Samfylkingarinnar ætlum ekki að leggja fram margar tillögur en þær brtt. sem við leggjum fram snúa að velferðarkerfinu. Við leggjum áherslu á að styrkja velferðarkerfið til að bæta kjör þeirra sem minnst hafa, sem búa við örbirgð og neyð úti í samfélaginu. Við viljum leggja einn og hálfan milljarð til að bæta kjör þeirra, til að auka tekjur þessa hóps. Við leggjum til að sú upphæð verði notuð á sem skilvirkastan hátt til að ná upp tekjunum þannig að hópar sem búa við skerta starfsorku eða eru aldraðir og geta ekki stundað vinnu lengur, þurfi ekki að búa við neyð.

Herra forseti. Þessar brtt. eru á þskj. 364 og snúa að lífeyristryggingunum og sjúkratryggingum almannatrygginga. Í þinginu höfum við rætt um hversu víða pottur er brotinn og vissulega dugar einn og hálfur milljarður ekki til að bæta stöðu allra þeirra sem þyrftu að fá stuðning. Við tökum hins vegar á ákveðnum þáttum sem eru tekjutryggingin hjá ellilífeyrisþegum og örorkuþegum. Ef við ætluðum að reyna að koma til hjálpar sem flestum lífeyrisþegum með litlar eða engar aðrar tekjur en almannatryggingarnar, þ.e. eiga lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóðum, þá kemur það þeim best að tekjutryggingin verði hækkuð. Við leggjum til 10% hærri tekjutryggingu til elli- og örorkulífeyrisþega umfram það sem ríkisstjórnin hefur áætlað í þessum fjárlögum.

Vissulega er einnig hægt að bæta kjör þeirra verst settu með því að breyta reglunum um tekjutengingarnar. Þær tillögur leggur maður ekki fram við fjárlagagerð heldur þyrfti það að koma fram í sérstöku frv. Að mörgu leyti þyrfti ekki lagabreytingar til til að bæta kjör að einhverju leyti. Mig langar til að benda á að tekjutengingarnar í almannatryggingakerfinu, hvort sem þær snúa að tekjutryggingunni eða grunnlífeyrinum, eru mismunandi eftir því hvaðan tekjur einstaklinganna koma. Það er verið að skerða þessar greiðslur meira vegna launatekna en vegna fjármagnstekna eða greiðslna úr lífeyrissjóði. Þetta gerir t.d. mörgum öryrkjum erfitt fyrir. Margir öryrkjar eiga lítinn rétt í lífeyrissjóði og þurfa að vinna til að geta séð sér farborða. Greiðslur almannatrygginganna duga ekki til framfærslu og til eru talandi dæmi um að lífeyrisþegar þurfi að leita til hjálparstofnana, líknarfélaga, Rauða krossins, mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar, til að geta haft ofan í sig og á út mánuðinn. Þó nauðsynlegt sé að eiga hjálparstofnanir að í neyðartilvikum þá á það ekki að þurfa að vera fastur liður hjá lífeyrisþegum að þurfa að leita á náðir slíkra samtaka.

Vegna umræðunnar um tekjutengingu vil ég að fram komi að við erum ekki á móti tekjutengingu. Vissulega á velferðarkerfið að vera fyrir þá sem þurfa á því að halda en ekki fyrir þá sem eru með háar tekjur, eins og reyndar kom fram í umræðunni um velferðarkerfið á dögunum. Ég tek undir það með hæstv. forsrh. að það á ekki að vera að greiða hátekjufólki úr velferðarkerfinu. En þegar sú umræða fór fram þá hvarflaði að manni að hvorki hæstv. forsrh. né hæstv. heilbrrh. hefðu í rauninni lesið skýrslu Stefáns Ólafssonar. Þannig var nú umræðan frá hendi þeirra hæstv. ráðherra. Í velferðarkerfinu í dag, í lífeyriskerfinu í dag erum við að greiða töluverða fjármuni til hátekjufólks úr almannatryggingunum. Fólk með jafnvel kvartmilljón á mánuði úr lífeyrissjóðum fær 17 þús. kr. á mánuði úr almannatryggingakerfinu meðan aðrir sem verulega þurfa á framfærslunni að halda eiga ekki til hnífs og skeiðar í lok mánaðar. Ósjaldan heyrir maður, frá öryrkjum og öldruðum sem þurfa að lifa á almannatryggingabótunum einum saman, að þetta fólk leyfir sér ekki að kaupa ávexti, grænmeti eða vörur í hærri kantinum. Það eru ömurlegar lýsingar á því oft á hverju fólk er að nærast í lok mánaðar. Fólk hefur kannski 45 þús. kr. til að lifa af á mánuði og þarf að greiða af því allan kostnað.

Um daginn að hafði ég samband við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna til að athuga hver framfærslan væri, við hvað ríkisstjórnin miðaði framfærslu þeirra sem leituðu til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þegar maður ber saman hvað þar er ætlað til framfærslu og síðan lífeyrisgreiðslurnar sem við ætlum lífeyrisþegunum til framfærslu þá eru lífeyrisgreiðslurnar mun lægri en miðað er við þegar menn þurfa að fá aðstoð frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Það eitt hefði átt að segja formanni fjárln. og ríkisstjórnarfulltrúunum í fjárln. og reyndar ráðherrum og öðrum þeim sem véla um fjárlögin að þar þurfi að koma til aðstoðar. Þarna er augljóslega pottur brotinn. Við í Samfylkingunni viljum bæta stöðu þeirra sem verst eru settir með þessum fjárframlögum á þskj. 364, þar sem við leggjum til 10% hækkun á tekjutryggingu ellilífeyrisþega miðað við fjárlög eins og þau eru hér við 2. umr. og sömuleiðis hjá örorkulífeyrisþegum. 10% hærri fjárveitingu en ríkisstjórnin ætlar til þess.

[23:00]

Það sem ég vil leggja ríkasta áherslu á í sambandi við brtt. okkar er afnám tengingar við tekjur maka hjá lífeyrisþegum. Smáskref var stigið í þá átt nú fyrir kosningar en það var aðeins hænufet því miður. (Gripið fram í.) Þó var það til bóta, vissulega hv. þm. Jón Kristjánsson. Það var til bóta. Með þessari reglu um tengingu við tekjur maka er verið að skerða mannréttindi. Það er verið að brjóta mannréttindi á lífeyrisþegum og það er full ástæða til að taka það til umræðu í dag, á mannréttindadeginum 10. des. Við erum að brjóta mannréttindi á hópi í samfélaginu. Það er reyndar dómsmál í gangi og ég efast um að okkur líðist áfram að beita þeirri reglu gagnvart lífeyrisþegum.

Ég efast ekki um að þeir sem þekkja kjör öryrkja sérstaklega vita hvaða áhrif þessi regla hefur haft á fjölskyldulíf öryrkja, hversu margir hafa leiðst út í skilnað vegna hennar. Þetta hefur brotið upp margar fjölskyldur, leitt til fjölskylduharmleikja. Börn öryrkja hafa ekki getað leyft sér að taka fullan þátt í samfélaginu. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, hv. þm. Jón Kristjánsson. Þetta eru staðreyndir. Þessi börn eru ekki með í íþróttum, fara ekki í tónlistarkennslu eða annað sem fólk leyfir börnunum sínum almennt í dag.

Í könnunum hefur komið í ljós að þessi börn geta orðið samfélaginu dýr síðar. Það kemur mér á óvart að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki nú þegar hafa afnumið þessa óréttlátu reglu. Ég furða mig á því þar sem þetta á ekki að kosta nema um 360 milljónir. Meðan menn geta veitt 200 milljónir í hrossakaup og hestastúss þá er ekki hægt að leggja til velferðarmálanna, til aftengingar á þessari óréttlátu tekjutryggingu og láta af mannréttindabrotum, svo mikið sem eina milljón, hvað þá tvær. Það er ekki nokkur skapaður hlutur lagður til hér, a.m.k. er það ekki afmarkað í fjárlögunum.

Þetta er brot á þeim mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að. Þetta er brot á mannréttindasáttmála Evrópu, brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. Það er vissulega löngu tímabært að afnema þessa reglu og það viljum við þingmenn Samfylkingarinnar gera.

Við þyrftum auðvitað að taka á ýmsu öðru sem snýr að öryrkjunum. Við gerum það náttúrlega ekki beint við þessa fjárlagaumræðu en það þarf að breyta fyrirkomulaginu gagnvart þeim, sérstaklega öryrkjunum sem missa starfsgetuna snemma á ævinni. Þeir þurfa að geta hækkað ráðstöfunartekjurnar eftir því sem þeir eru eldri og til eru ákveðnar hugmyndir um hvernig við getum stighækkað örorkulífeyrinn án þess að það kosti verulega fjármuni. Það er okkur dýrt að vera með þessar lágviðmiðanir í velferðarkerfinu. Við höfum margoft bent á þetta í umræðunni og á því er hver staðfestingin af annarri í riti Stefáns Ólafssonar um íslensku leiðina. Við borgum lægri bætur, við erum með meiri fátækt, erum með lakari kjör og meiri ójöfnuð á Íslandi.

Ég minnist þess þegar ég starfaði hjá Tryggingastofnun ríkisins og við unnum að því með öðrum Norðurlandaþjóðum að bera saman lífeyri og almannatryggingakerfið milli þessara landa. Þar voru menn spurðir: Hvar vildirðu helst vera þegar þú verður gamall? Hvar vildirðu helst búa ef þú misstir heilsuna og þyrftir að lifa á almannatryggingabótum eða ef þú misstir heilsuna og þyrftir að vera á sjúkradagpeningum? Aldrei vildi nokkur maður vera á Íslandi undir þeim kringumstæðum. Í hvert einasta skipti sem svona dæmi voru dregin upp var Ísland langt fyrir neðan frændþjóðirnar á Norðurlöndunum. Það var skammarlegt og það er skammarlegt.

Vegna tengingarinnar við tekjur maka bendir Stefán Ólafsson á það í bókinni um íslensku leiðina að þetta sé tekjutenging sem sé hvergi viðhöfð lengur á Vesturlöndum. Hann segir það fyrirkomulag eiga rætur sínar að rekja til fátækraaðstoðarinnar á 19. öldinni þegar framfærslan var fyrst á herðum fjölskyldunnar áður en það kom að hinu opinbera. Þetta er nokkuð sem hefði þurft að vera búið að laga fyrir löngu.

Velferðarkerfið þarf reyndar að vera í sífelldri endurskoðun og sífelldri breytingu. Við sitjum núna uppi með velferðarkerfi sem lítið hefur breyst frá 1971. Það hefði að sjálfsögðu þurft að bæta kjörin og núna í góðærinu hefði þurft að skjóta styrkari stoðum undir velferðarkerfið.

Ég gerði öryrkjana að umræðuefni séstaklega vegna þess að nokkuð stór hluti öryrkja fær ekki neinar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Það fólk þarf betri stuðning frá velferðarkerfinu. Það eru 43% öryrkja sem fá engar greiðslur úr lífeyrissjóðunum. Sama má segja um allstóran hóp aldraðra. Þegar maður fer að skoða þennan hóp aldraðra sem býr við fátækt er einnig merkilegt að þrír af hverjum fjórum öldruðum undir fátæktarmörkum eru konur. Það er auðvitað að einhverjum hluta vegna þess að konur eiga minni rétt í lífeyrissjóðunum en karlar. Enn eru fjölmargir lífeyrisþegar eða eftirlaunaþegar í kerfinu sem eiga lítinn eða engan rétt í lífeyrissjóðum. Þó það sé mikið að breytast eru þeir sem koma inn á almannatryggingarnar á hverju ári yfirleitt með æ meiri réttindi í lífeyrissjóðunum. Það er okkar styrkur, það er styrkur velferðarkerfis okkar að lífeyrissjóðirnir eru eins og þeir hafa verið byggðir upp. En á meðan þeir hafa ekki tekið yfir meiri hluta af almannatryggingunum þá þurfum við að bæta kjör þeirra sem þar eiga ekki rétt.

Þetta voru nokkur orð um breytingar sem við leggjum til á lífeyristryggingunum til að bæta hag þeirra sem verst eru settir. Vissulega þarf meira til. Það þarf að taka til í þessum ranni.

Við leggjum jafnframt til breytingar á sjúkratryggingunum. Við höfum bent á það, herra forseti, hér úr þessum ræðustól hve ömurleg kjör sjúklinga eru ef þeir eiga ekki rétt í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna eða hafa nýtt veikindarétt sinn og þurfa að treysta á almannatryggingarnar. Sem betur fer er þetta ekki mjög stór hópur en þetta fólk fær mjög lágar greiðslur, um 20% af almennum verkamannalaunum, á meðan nágrannaþjóðir okkar greiða þegnum sínum 70--100% af atvinnutekjum séu þeir í slíkri stöðu. Ég er sannfærð um að ef þessi þáttur sjúkratrygginganna verður leiðréttur og lagaður í þá veru sem hann er á Norðurlöndunum þá mun það verða sparnaður annars staðar í kerfinu. Reglan um sjúkratryggingarnar og sjúkradagpeningana hefur það í för með sér að læknar hneigjast til að úrskurða þetta fólk á örorkugreiðslur mjög fljótt. Því miður er það oft þannig að þegar fólk er komið á örorkugreiðslurnar þá fer það ekki út af greiðslunum aftur.

Á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins á dögunum kom fram að um 1.600--1.700 manns á ári þurfa að búa við þessar aumu sjúkratryggingagreiðslur sem eru rúmar 20 þús. kr. á mánuði, 10 þús. ef menn eru í hlutastarfi. Greiðslurnar til framfærslu barna, til að fæða þau og klæða eru innan við 200 kr., 182 kr. á dag, sem er náttúrlega hlægileg upphæð og allir vita að af þeirri fjárhæð er hvorki hægt að lifa né deyja. Við leggjum til að sjúkradagpeningarnir hækki um 100% og þó svo að það dugi alls ekki til þá er það þó í áttina og þá miðast upphæð sjúkradagpeninga við sömu upphæð og fæðingardagpeningar. Konu í fæðingarorlofi er ætlað að lifa á helmingi hærri upphæð en sjúklingi, það bara segir sig sjálft að þetta eru fáránlegar viðmiðanir og rugl. Konur í fæðingarorlofi hafa helmingi hærri dagpeninga en sjúklingur sem hefur ekkert annað fyrir sig að leggja.

Sjúkradagpeningareglunum þyrfti einnig að breyta á mannúðlegri hátt. Samkvæmt þeim á sjúklingurinn ekki að hafa neina framfærslu í 14 daga, fyrstu 14 dagana sem hann er veikur og án tekna hefur hann ekki neinn rétt í almannatryggingunum. Hann fær ekki greiðslur þaðan fyrr en hann hefur verið veikur í 21 dag. Það segir sig sjálft að þarna þarf að breyta reglunum.

Hv. þm. sem talaði á undan mér vitnaði í bók Stefáns Ólafssonar og las upp kafla úr henni. Ég ætla ekki að endurtaka það, herra forseti, en mig langar til að vitna hér í bók Stefáns Ólafssonar og lesa úr henni örlítinn kafla um velferðarkerfið. Á bls. 348 og 349 segir í bókinni, með leyfi forseta:

,,Öryggisnet samfélagsins liggur frekar lágt þegar hagsældarstig þjóðarinnar er haft í huga og því verður lífskjaravandi oft mikill meðal þess fólks sem á allt sitt undir lífeyrisgreiðslum frá almannatryggingum. Það er í sjálfu sér ekki stór hluti þjóðarinnar sem þar um ræðir, þ.e. sem býr við allra hörðustu kjörin, og því má segja að það væri ekki sérstaklega íþyngjandi fyrir þjóðarheildina að bæta hag þeirra.``

Það er ekkert sérstaklega íþyngjandi fyrir þjóðarheildina að bæta hag þessa fólks. Við eigum alveg að geta gert það. Ég undrast að hæstv. heilbrrh., sem ætti nú að þekkja þessi mál manna best, búin að stjórna þessum málaflokki í hálfan áratug, skuli ekki hafa lagt það til hér, miðað við það sem hefur verið gert til að kanna ástandið í þessum málum, skoða þessi atriði, gera úttektir, skipa nefndir, ræða málin, skrifa heilu bækurnar. Allt þetta er staðfesting á því að þetta fólk býr við ömurlegar aðstæður og þarf hærri greiðslur til að skrimta.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni leggjum til eins og hálfs milljarðs útgjaldaaukningu við þessa fjárlagaafgreiðslu. Við 3. umr. munum við koma með tekju- og sparnaðartillögur á móti. Það mun koma á móti þessum útgjaldaliðum, ef þessar tillögur yrðu nú samþykktar, ef ríkisstjórn góðærisins væri það stórhuga að samþykkja að setja þessa peninga í að styrkja innviði velferðarkerfisins og tryggja afkomu þess fólks sem verst er statt í velferðarkerfinu og gerði lítillegar breytingar á almannatryggingalögunum. Ég gæti verið hæstv. ríkisstjórn innan handar í þeim efnum ef þeir vildu njóta leiðsagnar minnar. Ég efast þó ekki um að þeir hafi sérfræðinga á sínum snærum til að gera það.

Í lokin, herra forseti, langar mig til að benda á hve aumir við Íslendingar og ríkisstjórn okkar erum í framlögunum til velferðarmálanna. Við erum ekki hálfdrættingar á við aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Við setjum 19% af vergri þjóðarframleiðslu til velferðarmálanna meðan nágrannaþjóðir okkar leggja í það kerfi yfir 30%, Svíþjóð 36% tæp, Danmörk 34%, Finnland 33% og Noregur rétt undir 30%. Við rétt löfum í 19%.

Nú þegar nógir peningar virðast til í allt mögulegt sem mönnum dettur í hug ættum við nú að geta sett einhverja peninga til þess að verða ekki alræmd fyrir fólk undir fátæktarmörkum, sem á ekki í sig eða á, þarf að lifa á hafragraut í lok mánaðar (ÍGP: ... skyri?) og öðrum grautum. Það hefur varla efni á skyri, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason. (Gripið fram í: Þú varst nú með skyrdós um daginn hérna.) Skyrdósin, hv. þm., kostar meira en hv. þm. og félagar hans í ríkisstjórninni ætla til framfærslu á barni á einum dagi, að fæða og klæða barn sjúklings á einum degi. Það dugir ekki fyrir svona skyrdós, hv. þm., hvað þá einhverju út á skyrið. Ég læt þetta koma fram úr því að hv. þm. gerir þessa skyrdós að umræðuefni.

Vissulega er þetta ekki til að grínast með. Þetta eru háalvarlegir hlutir. Við eigum að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í samfélaginu. Til þess er velferðarkerfið. Því miður virðist það ekki halda lengur. Þar eru hópar sem hafa ekki sómasamlega framfærslu, fólk sem getur ekki unnið fyrir sér og það viljum við aðstoða. Við viljum leiðrétta það og leggjum til, herra forseti, að veittur verði einn og hálfur milljarður til þess.