Fjárlög 2000

Mánudaginn 13. desember 1999, kl. 13:03:57 (2842)

1999-12-13 13:03:57# 125. lþ. 43.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 125. lþ.

[13:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Varðandi fjármagn til undirbúnings jarðgangagerðar samkvæmt fjármunum vegáætlunar er kveðið á um að fjármagn til jarðganga sé sérmerkt á fjárlögum. Þær tillögur um vegabætur með jarðgöngum sem lengst eru unnar eru um göng milli Fáskrúðsfjarðar, Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Norðfjarðar, jarðgöng til Siglufjarðar og síðan er áfram haldið á Vestfjörðum.

Til þess að slík jarðgangagerð geti komið til framkvæmda þarf að vinna heilmikla rannsóknar-, undirbúnings- og hönnunarvinnu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er hægt að hefja framkvæmdir á fullu við áðurnefnd jarðgöng á Austurlandi eftir eitt til tvö ár og á Siglufirði eftir tvö til þrjú ár, en til þess þarf að veita fé til undirbúnings og rannsókna. Annars er þetta verkefni stopp og það tel ég mjög alvarlegt, herra forseti, í þeim samgöngubótum sem við erum að vinna að.