Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 16:54:01 (2996)

1999-12-15 16:54:01# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[16:54]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín örfáum atriðum í ræðu sinni. Í fyrsta lagi hvort nokkrar líkur væru til að áform um niðurgreiðslur skulda gengju frekar fram á næsta ári vegna viðskiptahallans. Ég deili vissulega með honum áhyggjum af viðskiptahallanum. Hins vegar má geta þess að við höfum gripið til aðgerða, við höfum ákveðið að fresta nokkrum framkvæmdum. Við höfum gripið til þess ráðs að selja hlutabréf í ríkisbönkunum sem mun væntanlega ná inn peningum. Það hefur verið gripið til vaxtahækkana þó að árangur af þeim sé takmarkaður enn sem komið er. Ég vona sannarlega að okkur takist að ná markmiðum okkar í þessu á næsta ári. En að mínu mati þurfum við að fara blandaða leið þar til úr þenslunni dregur og leggja eitthvað af þessu fé á reikning í Seðlabankanum.

Hv. þm. kom einnig inn á margumtalaðar verklagsreglur í heilbrigðiskerfinu. Ég vil segja það eitt um það að í ítarlegu nál. var greint frá áformum fjárln. í því máli. Fjárveitingarnar verða ekki felldar niður nema með fjáraukalögum sem kemur auðvitað til meðferðar Alþingis, ef til þess kæmi en ég vona að ekki þurfi að koma til. Það er ætlast til að gerðir verði samningar við heilbrigðisstofnanir um umfang og þjónustu. Ég á ekki von á öðru en að þeir samningar takist og ekki þurfi að koma til þess að þessar fjárveitingar verði felldar niður. Ég efast ekkert um að forstöðumenn stofnana hafa fullan vilja til þess.