Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 22:26:50 (3042)

1999-12-15 22:26:50# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[22:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. við fjárlfrv. á þskj. 444 en þetta eru einu brtt. Samfylkingarinnar við þetta fjárlagafrv. Voru þær lagðar fram við 2. umr. en dregnar til baka til 3. umr. Á þessari brtt. eru allir þingmenn Samfylkingarinnar og viljum við með því leggja áherslu á hversu mikilvægt mál þetta er okkur, að leggja til tæpa 1,5 milljarða til styrktar velferðarkerfinu.

Þetta gerum við í framhaldi af úttekt Stefáns Ólafssonar fyrir Tryggingastofnun ríkisins sem kynnt var í bók um Íslensku leiðina. Þar kemur fram að við erum ekki nema hálfdrættingar á við aðrar þjóðir í velferðarmálunum og að staða lífeyrisþega, sem þurfa að treysta eingöngu á velferðarkerfið, er mjög slæm og mun verri hér en víða annars staðar og er þá hægt að bera okkur saman við þjóðir sem eru mun fátækari en við, þjóðir í Suður-Evrópu. Því leggjum við þetta til þar sem ríkisstjórnin virðist ekki ætla að taka á þessum málum þrátt fyrir ábendingar frá Félagsvísindastofnun um stöðu mála hjá lífeyrisþegum.

Hv. þm. Jón Kristjánsson viðurkenndi við 2. umr. um fjárlögin að vissulega væri þörf á að taka á þessum þætti en það yrði að bíða. Við getum ekki sætt okkur við að þetta bíði þar sem nú ríkir svokallað góðæri og menn eru tilbúnir til að leggja stóra fjármuni í ýmsa aðra þætti en við teljum þetta vera eitt brýnasta málið.

Ég vil nefna fyrst, herra forseti, það atriði sem ég tel einna brýnast og stærsta málið í tillögum okkar en það er afnám tekjutengingar tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega við tekjur maka þeirra. Þetta er mál sem við höfum barist fyrir í nokkuð langan tíma og lífeyrisþegar hafa einnig gert og margoft hefur verið bent á að er brot á mannréttindum.

Í frv. sem ég hef verið 1. flm. að, herra forseti, og talað fyrir nokkrum sinnum í þinginu hefur verið bent á að upphaflega þegar almannatryggingar komust á á Íslandi var miðað við það að tryggingarnar væru persónutryggingar, hver einstaklingur væri tryggður og hefði sína persónutryggingu en svo er ekki þegar þessi regla er annars vegar, sem kemur inn í lögin þegar farið er að tekjutengja tekjutrygginguna. Þeir sem missa vinnuna fá atvinnuleysisbætur óháð því hvaða tekjur maki þeirra er með eða hvort hann er með tekjur yfirleitt en lífeyrisþegar eru tekjutengdir maka sínum þegar almannatryggingabæturnar eru annars vegar.

[22:30]

Þetta hefur haft í för með sér að fjölskyldur lífeyrisþega lenda í fátækragildru jaðarskattanna. Þar má sérstaklega nefna öryrkjana og þetta hefur unnið gegn fjölskyldunni. Menn hafa neyðst út í skilnað og þetta hefur brotið upp fjölskyldur og til eru mörg dæmi um það. Í grg. frv. þar sem við leggjum til að þessi tekjutenging skuli ekki heimil er líka bent á að í raun sé þetta ekki andi almannatryggingalaganna og varla heimilt því að það er talað um að tekjutryggingin skuli tengd tekjum einstaklings eða bótaþegans en hvergi minnst á tekjur makans í lögunum.

Þetta er líka andstætt stjórnarskránni, og vil ég þá nefna 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. En með þessari skerðingarreglu við tekjur maka er verið að mismuna lífeyrisþegum eftir hjúskaparstöðu eða sambúðarformi má segja því það er ekki aðeins að menn þurfi að vera í hjúskap heldur er einnig verið að tekjutengja bæturnar við sambýlisaðila, ef fólk er í sambúð. Þarna er líka verið að mismuna fólki á vinnualdri eftir því hvort það á við atvinnuleysi að stríða eða heilsubrest og það er ekki í anda stjórnarskrárinnar.

Ég vil einnig benda á að þetta brýtur líka gegn 11. gr. stjórnsýslulaga, þar sem bent er á að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og óheimilt sé að mismuna á grundvelli þjóðfélagsstöðu eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þar sem þessi regla er annars vegar virðist vera að verið sé að brjóta lög á fólki og þá sérstaklega þeim sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, fólki sem búið er að missa heilsuna og getur ekki unnið fyrir sér.

Það er einnig ástæða til að benda á, herra forseti, að þessi skerðingarregla, sem við viljum afnema og leggjum til 360 millj. kr. til viðbótar við lífeyristryggingar almannatrygginga, stríðir gegn mannréttindadsáttmálum og alþjóðasamningum sem við höfum skuldbundið okkur að virða. Þar vil ég benda á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt á allsherjarþinginu 10. des. 1948. Þar er tekið á því að ekki megi mismuna fólki í þessa veru og sömuleiðis er í mannréttindayfirlýsingunni talað um jafnrétti til hjúskapar og stofnunar fjölskyldu og þar er sérstaklega kveðið á um hlutverk fjölskyldunnar og skyldur ríkisins gagnvart henni.

Það má nefna ýmis fleiri atriði sem koma að því hvernig verið er að brjóta á fólki með þessari reglu. Umboðsmaður í málefnum fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum, Bengt Lindqvist, hefur gagnrýnt opinberlega íslensk stjórnvöld fyrir það að mannréttindi fatlaðra séu ekki í heiðri höfð þegar þessi regla er annars vegar og nú síðast fór Öryrkjabandalagið í mál við heilbrrh. vegna þeirrar reglu og má búast við að dómur verði birtur á næstu dögum í því máli.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessi regla er leifar úr fortíðinni. Stefán Ólafsson prófessor bendir á að þetta séu leifar frá fátækraaðstoðinni á 19. öld sem viðgengst hér og bendir einnig á að þessi regla sé hvergi, herra forseti, við lýði nema hér. Ég tel því, herra forseti, og við í Samfylkingunni að löngu sé orðið tímabært að afnema hana og það kostar ekki meira en 360 millj. að afnema þá reglu og hafa í heiðri mannréttindi gagnvart þessu fólki, þeim hópi lífeyrisþega.

Einnig má benda á að mjög margir öryrkjar eru mjög illa staddir fjárhagslega, sérstaklega þeir sem þurfa að treysta á almannatryggingarnar. 43% allra öryrkja fá enga aðstoð úr lífeyrissjóði og þurfa þess vegna meira og minna að treysta aðeins á almannatryggingarnar. Þetta hefur bitnað á börnum öryrkja, þau hafa ekki getað tekið þátt í félagslífi eða samfélaginu með öðrum börnum vegna fjárhagsstöðu á heimilum öryrkja. Þau geta ekki tekið þátt í íþróttum, ekki er hægt að kaupa á þau íþróttaföt, borga félagsgjöld o.s.frv., hvað þá að þau fái að taka þátt í að læra á hljóðfæri eða vera í tónlistartíma því að fjölskyldur öryrkja eru ekki aflögufærar. Þess vegna leggjum við mjög ríka áherslu á að þarna komi inn fjárveiting, 360 millj., til að afnema þetta mannréttindabrot á þessum hópi.

Herra forseti. Við leggjum síðan til hækkun á tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega og leggjum til tæpan milljarð í þá hækkun. Með því er hægt að bæta kjör verst settu lífeyrisþeganna allverulega. Einnig er hægt að gera það með því að breyta tekjutryggingarreglunum. Mig langar til að benda á það að í umræðum um velferðarmálin á dögunum talaði hæstv. forsrh. um að okkar tryggingakerfi væri ekki að greiða upphæðir til þeirra sem vel væru staddir, þeirra sem væru efnamiklir í samfélaginu. En það er ekki rétt, herra forseti. Við erum að greiða úr almannatryggingakerfinu til fólks sem er með kvartmilljón og jafnvel enn hærri upphæðir úr lífeyrissjóððum. Þetta fólk er að fá greiðslur mánaðarlega úr almannatryggingunum á meðan hópar geta ekki framfleytt sér á þeim greiðslum sem þaðan koma.

Það er því hægt að endurskoða kerfið, tekjutengingarkerfið verulega þannig að meiri jöfnuður ríki meðal lífeyrisþega og það er ástæða til að skoða það. Það þyrfti auðvitað að fara í að breyta þar ýmsu innan kerfisins.

Síðan er tillaga frá okkur samfylkingarþingmönnum um að sjúkradagpeningar almannatrygginga hækki um 100%. Eins og bent hefur verið á eru þeir mjög lágir, um 20 þús. kr. á mánuði hjá því fólki sem á engan rétt úr sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna. Það þarf að framfleyta sér á 20 þús. kr. Þeir sem eru í hlutastarfi, t.d. það fólk sem neyðist til að ráða sig sem verktaka í fyrirtæki, sem er að verða æ algengara, fá ekki nema rúmar 10 þús. kr. í sjúkradagpeninga úr almannatryggingunum. Það er vissulega tímabært að hækka þá upphæð og ef við miðum við 100% hækkun, þá er það sama upphæð og fæðingardagpeningarnir sem konur fá greidda í fæðingarorlofi og er þá fullkomlega eðlilegt að sjúklingur sem er óvinnufær vegna sjúkdóms fái ekki lægri greiðslur en eru ætlaðar nýorðnum mæðrum í fæðingarorlofi þeirra.

Herra forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur gert grein fyrir brtt. okkar þingmanna Samfylkingarinnar á þskj. 413 og 445 þar sem við leggjum til tekjur á móti þessum útgjöldum. Ég bendi á að lagðar eru til mun meiri tekjur en útgjöldin eru. Tekjurnar sem við leggjum á móti eru 2.750 þús. kr. en útgjöldin eru tæpir 1,5 milljarðar. Það er því langt á annan milljarð sem er umfram til að þarna skilist afgangur gagnvart þeim útgjöldum sem við leggjum til.

Herra forseti. Samfylkingin er að leggja áherslu á stefnumál sín með því að leggja til þessar auknu greiðslur til velferðarkerfisins. Við viljum styrkja velferðarkerfið, það er á brauðfótum. Við erum hálfdrættingar á við aðrar þjóðir. Velferðarkerfið á að vera fyrir fólkið, einstaklingana og fjölskyldurnar í landinu. Það á að styðja að fjölskyldunni og það verður að bæta fyrir þá sem minnst hafa. Við vitum að það fólk sem býr við lægstu greiðslurnar úr almannatryggingunum og hefur hvergi annars staðar tekjur er að leita til hjálparstofnana og líknarfélaga til að hafa í sig og á og núna sérstaklega þegar jólin eru fram undan ættu menn að hafa skilning á að þarna þurfi að bæta hlut þessa fólks.

Verið er að leggja hér til að afnema mannréttindabrot sem viðgengst í samfélaginu áður en 21. öldin gengur í garð auk þess sem lagt er til að tekjur til þeirra verst settu í velferðarkerfinu verði bættar og einnig að sjúklingar sem eiga hvergi annars staðar rétt en hjá almannatryggingunum fái 100% hækkun á lífeyri sínum. Vissulega, herra forseti, þyrfti það að vera meira, en þó kemur þarna veruleg hækkun til.