1999-12-16 00:46:32# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[24:46]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma í ræðustól og lýsa ánægju minni með yfirlýsingu formanns fjárln. um það sem ég gerði að umtalsefni, þ.e. jöfnun húshitunarkostnaðar. Ég vona að það sé skilningur okkar allra, eins og hér kom fram, að ætlunin er að jafna húshitunarkostnað án tillits til þess hver orkugjafinn er, án tillits til hvort hann er rafmagn eða heitt vatn.

Ég treysti því líka að hv. þm. hjálpi til við það og stuðli að því í samræmi við það sem hann hefur sagt hér og lýst yfir --- ég vil segja alveg eins og er að ég hef sennilega ekki verið hér inni þegar hann ræddi þennan þátt við 2. umr. en vænti þess að hann sé harður og góður stuðningsmaður þeirrar endurskoðunar sem iðnrn. er að vinna að varðandi þennan þátt sem vissulega er þörf á miðað við það hvað reglurnar sem unnið er eftir eru gamlar --- að þetta verði fullkomlega tekið inn í hvað varðar dýru hitaveiturnar vegna þess að ég ítreka það og segi að engu máli skiptir hver orkugjafinn er. Í þessari þverpólitísku nefnd, byggðanefnd forsrh. sem ég hef vitnað í, var fjallað um þetta í það víðu samhengi að dýru hitaveiturnar voru líka meðtaldar þó svo að Byggðastofnun sem á nú að vinna fyrir alla landsbyggðina og alla þá sem borga dýra húshitun, hafi ekki gert það að þessu sinni eins og ég gerði að umtalsefni í ræðu minni og hamraði mjög á.

Ég ítreka þetta og þakka hv. þm. Jóni Kristjánssyni, formanni fjárln., fyrir þá yfirlýsingu sem hann hefur gefið hér og vænti þess að málið nái fram að ganga þó að það verði eftir tvo, þrjá eða fjóra mánuði.