Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:38:55 (3131)

1999-12-16 14:38:55# 125. lþ. 47.8 fundur 200. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 99/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Um þetta mál sem hér er til umræðu og niðurstöðu þess innan nefndarinnar er full samstaða. Við erum sammála um að það að taka út úr 16. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og setja inn í sérlög, ákvörðun um eftirlitsgjald eða greiðslu kostnaðar vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi sé af hinu góða. Þar er Alþingi í rauninni falið að taka eins oft og þurfa þykir ákvörðun um breytt gjald vegna eftirlitsstarfsemi fjármálafyrirtækja. Reyndar var í umsögn sem nefndinni barst frá samtökum fjármálafyrirtækja dregið í efa að það fyrirkomulag, sem hefur verið haft á þessu frá því að lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi voru samþykkt, uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru í stjórnarskrá um efni og form skattalaga. En í umsögninni segir, með leyfi forseta:

,,Í 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er nú mælt fyrir um skyldu eftirlitsskyldra aðila til að standa straum af kostnaði við starfsemi fjármálaeftirlits. Þar er um nokkurs konar rammalöggjöf að ræða, því ráðherra er ætlað að setja nánari fyrirmæli um fjárhæð gjaldsins og innheimtu þess í reglugerð.`` Síðan segir: ,,Full ástæða er til þess að ætla að álagning og innheimta eftirlitsgjaldsins á þennan hátt uppfylli ekki lágmarkskröfu stjórnarskrár um efni og form skattalaga. Í henni er skýrt tekið fram að óheimilt sé að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann, sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.`` Ef þessi vafi, sem ekkert hefur svo sem reynt á, hefur verið til staðar þá er þó alla vega búið að taka á honum með því að leggja fram það frv. sem hér er til umræðu.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að segja að það urðu mikil vonbrigði að þau frv. sem liggja í nefndinni, annað er frá þingflokki Samfylkingarinnar og hitt er frá hæstv. viðskrh., skyldu ekki vera afgreidd samhliða. Ég tel að það mikil samstaða sé meðal þingmanna um þessi mál að það hefði verið möguleiki á því að afgreiða þau hér fyrir jól ekki síður en önnur þau frv. sem er verið að keyra í gegn. Og ekki síst í ljósi þess að fyrir stuttu var Alþingi að ákveða að selja 15% hlut í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og það er mikil þörf á því að herða og styrkja þær reglur sem Fjármálaeftirlitið hefur til þess að sinna starfi sínu. Oft hafa komið fram athugasemdir hér á Alþingi þess efnis að bæta þyrfti þar úr, að þó að þessi lög séu tiltölulega ný eða stutt síðan þau voru samþykkt, þá hafi þróunin á fjármagnsmarkaðnum verið svo ör að sérstaklega þurfi að taka á, breyta og styrkja eftirlitsþáttinn og þá fyrst og fremst Fjármálaeftirlitið en einnig lög um Samkeppnisstofnun. Samfylkingin hefur einnig lagt fram ítarlegt frv. um breytingar á lögum um Samkeppnisstofnun en því miður æxluðust mál þannig að í efh.- og viðskn., þó að hún sé feikidugleg nefnd og afkastamikil, hefur ekki unnist tími til að fara í þessi frv. eins og við hefðum þurft að gera og afgreiða nú fyrir áramót.

Ég vil, virðulegi forseti, einnig nefna það að þó að samtök fjármálafyrirtækja hafi eins og aðrir umsagnaraðilar mælt með samþykkt þessa frv., þá kemur eftirfarandi fram í umsögn þeirra:

,,Samtök fjármálafyrirtækja mæla með því að frv. þetta verði samþykkt en þó með þeim breytingum sem hér að framan hefur verið lýst.`` --- Það er í samræmi við þá brtt. sem nefndin hefur lagt fram. --- ,,Fulltrúar samtakanna og einstakra aðildarsambanda þess eru reiðubúnir að mæta á fund nefndarinnar til að ræða málefni sé þörf talin á því. Loks benda samtökin á að í gildistökuákvæði laga nr. 87/1998 er kveðið á um að viðskrh. skuli gangast fyrir endurskoðun á gjaldaákvæðinu í 16. gr. þeirra laga fyrir 1. janúar 2002. Samtökin telja sig hafa vilyrði viðskrn. fyrir því að þessi endurskoðun muni hefjast strax á næsta ári og ætti hún að snúast um álagningarhlutföll og álagningarstofna. Af hálfu samtakanna er litið svo á að setning sérstakra laga um eftirlitsgjaldið, þ.e. 200. þingmál, komi að engu leyti í stað þessarar endurskoðunar. Þvert á móti leggja samtökin mikla áherslu á að hún fari sem fyrst fram og óska eftir því að þingnefndin taki málið upp við fulltrúa ráðuneytis þegar fjallað verður um frv. og geti þess í nál.``

Það hefur komið mjög skýrt fram af hálfu fulltrúa hæstv. iðn.- og viðskrh. í nefndinni að ráðuneytið styður þessi sjónarmið sem koma fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja að fram skuli fara endurskoðun á gjaldaákvæðum að því er varðar álagningarhlutföll og álagningarstofna fyrir 1. janúar 2002. Ráðuneytið hefur tekið skýrt undir þessi sjónarmið.

Virðulegi forseti. Við skrifum undir nál. án fyrirvara og styðjum frv. og þá niðurstöðu sem fyrir liggur hjá nefndinni og teljum það til verulegra bóta frá því sem nú er.