Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:06:02 (3136)

1999-12-16 15:06:02# 125. lþ. 47.10 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér en varð engu að síður tilefni töluvert ítarlegra umræðna í efh.- og viðskn. Með þessu frv. var fyrst og fremst verið að breyta efnisákvæðum sem voru áður í reglugerðum í lagatexta. Þetta er liður í því lagahreinsunarstarfi sem hefur tengst breyttri stöðu skattlagningar samkvæmt stjórnarskránni.

Nefndin fór mjög rækilega yfir einstök atriði í frv. og leitaði leiða til að orða þessa undanþágu almennar en með beinni upptalningu. Við yfirferð yfir málið kom í ljós í nefndinni að norrænu barnabókaverðlaunin eru ekki peningaverðlaun og því gerir nefndin þá tillögu að 5. tölul. 1. gr., sem fjallar um skattfrelsi þeirra verðlauna, falli niður.

Töluverðar umræður voru um það í nefndinni hvort það ætti að standa í íslenskum lögum að Nóbelsverðlaunin væru undanþegin tekjuskatti og útsvari. Niðurstaðan varð nú fyrir rest að halda skattfrelsi slíkra verðlauna inni þó ekki væri nema til þess að sýna það sjálfsálit að þjóðin undirbyggi sig undir það að einn af hennar bestu sonum eða dætrum fengi Nóbelsverðlaun, annaðhvort á sviði bókmennta eða einhverju öðru sviði vísinda. Það væri því rétt að hafa þetta í lögunum til þess að allir væru viðbúnir slíkum stórviðburði.

Nefndin leggur það til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef gert hér grein fyrir.