Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:02:40 (3174)

1999-12-16 18:02:40# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:02]

Ólafur Örn Haraldsson:

Hæstv. forseti. Hv. formaður allshn. hefur gert grein fyrir því lagafrv. sem hér er til 2. umr. og vil ég ekki orðlengja um þá nauðsyn sem ber til að lögfesta það frv. á þessu þingi svo skjótt sem verða má. Þar liggja til grundvallar brýnir hagsmunir sem raktir hafa verið, bæði vegna Haag-samningsins og lagabóta af ýmsu tagi sem um er getið.

Ég vil hins vegar gera að umræðuefni hér þátt þeirra barna sem eru skilin út undan við þessa lagasetningu en það eru börn foreldra í staðfestri samvist. Þegar lögin um staðfesta samvist voru samþykkt á hinu háa Alþingi fyrir nokkrum árum komu strax upp sterkar raddir í þá átt að heimila ætti samkynhneigðum að ættleiða börn, í það minnsta að stjúpættleiða börn. Fyrir þessu voru færð rök og þetta vildu margir ágætir hv. þm. styðja. Ekki varð þó af því, en í kjölfar þeirrar lagasetningar var flutt frv. hér í þinginu og að því stóðu þingmenn úr öllum flokkum. Sá þingmaður sem hér stendur var 1. flm. þess frv. en það gerði ráð fyrir því að samkynhneigðum væri heimilt að stjúpættleiða börn.

Þessu máli var síðan haldið áfram og haldið til haga hér í þingi og vísað til nefndar en hefur ekki náð fram að ganga. Það kviknaði því mikil von og björt í mínum huga þegar lögin um ættleiðingu komu núna til þingsins í haust enda var þá orðið ljóst að skilningur hefur vaxið við þessi sjálfsögðu sjónarmið og vænta mætti jafnvel að þingmeirihluti væri fyrir málinu.

Því er ekki að leyna að miklar umræður hafa farið fram vegna þessarar stöðu í allshn. og hefur vart meira verið rætt í umfjöllun um ættleiðingarfrv. en ættleiðingu barna foreldra í staðfestri samvist. Það er óþarfi hér á þessari stundu að rifja upp öll þau hin sjálfsögðu rök fyrir því að börn foreldra í staðfestri samvist eigi að njóta sömu réttinda og önnur börn, þ.e. að þau verði ættleidd inn í staðfesta samvist sem er lögformlegt samband og nýtur sömu réttinda og annað sambúðarform.

Ég vil þó taka eftirfarandi fram sem er aðalatriði. Við erum að tala hérna um réttindi barnanna fyrst og fremst, þ.e. þau réttindi barna að eiga foreldra sem eru fullgildir lagalegir foreldrar þeirra í skilningi ættleiðingarlaganna, þ.e. réttindi þeirra til að njóta erfða á borð við önnur börn. Sömuleiðis eru þetta sjálfsögð réttindi samkynhneigðra og sjálfsagt að þeir séu ekki einn daginn enn settir til hliðar, ekki aðeins af almenningsáliti sem hefur nú sem betur fer snúist mjög á sveif með samkynhneigðum, heldur að Alþingi sendi þau skilaboð frá sér um leið og það samþykkir aukin réttindi til hluta þjóðfélagsþegnanna að þá séu aðrir látnir sitja hjá og fái ekki sömu réttindi. Í þessum þingsal hefur vissulega verið dregið fram strax að hér er um að ræða vanda mjög margra foreldra. Það er beðið eftir tækifæri til þess að ættleiða börn og ég hef heyrt töluna 1.500 nefnda.

Í mínum huga getum við aldrei fjallað þannig um mannréttindi að við tökum þau og metum á einhverjum mælikvarða fjölda annars vegar og síðan mannréttindi annarra sem við ætlum ekki að virða til jafns af því að þeir eru færri. Mannréttindi eru í mínum huga algild en ekki afstæð með tilliti til fjölda eða annarra mála. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að við þessa afgreiðslu skuli lögin um staðfesta samvist ekki vera tekin upp og gerð á þeim sú breyting að ættleiðingarlögin taki til samkynhneigðra.

Ég ætla að rifja upp enn eitt aðalatriði og það varðar uppeldi og forræði á börnum foreldra í staðfestri samvist. Menn mega ekki rugla saman annars vegar forræðinu og hins vegar ættleiðingunni. Ef einhverjir hafa þær hugmyndir sem raunar eru alrangar og margoft hefa verið hraktar vísindalega í könnunum --- og þær hafa verið lagðar fram í allshn. --- ef menn halda að börn hafi slæmt af því að alast upp hjá samkynhneigðum þá hefur þetta ættleiðingarfrv. nákvæmlega ekkert með það að gera. Samkynhneigðir hafa í krafti laganna um staðfesta samvist full réttindi til forræðis og uppeldis barna. Þannig að ef einhver heldur að þar verði einhver skaði þá er hann þegar skeður með því forræði. Ættleiðingin hefur ekkert með þetta uppeldi að gera. Og ég hafna líka þeim gagnrökum að börn verði að hafa móðurímynd eða föðurímynd. Hvaðan halda menn að föðurímynd eða móðurímynd komi? Halda menn hún komi frá einhverju foreldri sem er fjarri daglegu uppeldi barnsins? Að sjálfsögðu ekki. Föður- og móðurímynd eða foreldraímynd kemur að sjálfsögðu frá þeim sem standa barninu næst dags daglega.

Fyrir nefndina voru lagðar skýrslur og greinargerðir lærðra manna sem ég tek fullt mark á og enginn hefur vefengt í nefndinni, um að börn samkynhneigðra eru samkvæmt rannsóknum síst verr úr garði gerð eftir uppeldið en þau sem alast upp í gagnhneigðri sambúð ef svo má orða það. Jafnvel hafa verið færð fyrir því rök að þau börn sem alast upp hjá samkynhneigðum séu umburðarlyndari vegna þess að þau hafa búið við aðstæður sem eru ólíkar því sem almennt gerist.

Ég fæ þess vegna ekki séð að nein efnisleg rök standi gegn því ef við hefðum tekið hér málefni samkynhneigðra til lagabóta um leið og við færðum þessar lagabætur fram í ættleiðingunni. Ég tel að Alþingi og löggjafinn og stjórnmálamennirnir eigi einmitt að hafa kjark til þess að ganga fram fyrir skjöldu með kyndil mannréttinda, þann kyndil sem ég hef kynnst í Strassborg hjá Evrópuráðinu þar sem menn beygja sig ekki endalaust fyrir hægfara tíðaranda heldur ganga fram fyrir skjöldu og þora að rétta mannréttindunum hönd. Þetta hefðum við átt að hafa kjark til að gera hér að þessu sinni.

Ég á mjög erfitt í þessu máli sem nokkru öðru með að láta nokkurn þann sem minna má sín eða er með einhverjum hætti til hliðar í samfélaginu liggja óbættan hjá garði þegar við lagfærum réttindi til annarra manna. Þess vegna hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og mun leggja allt mitt kapp á að við náum sem allra fyrst fram fullum réttindum bæði fyrir samkynhneigða og fyrir börnin þeirra sem eiga að sjálfsögðu að njóta sömu réttinda og önnur börn okkar í þessu landi.