Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:02:25 (3263)

1999-12-17 16:02:25# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig verið sammála hv. þm. um að fyrirtæki muni ekki bíða þess í löngum röðum að byggja upp nýtt dreifikerfi á afskekktum landsvæðum. Það er alveg ljóst. Þess vegna hef ég frekar hvatt til þess að menn stæðu með því fyrirtæki sem hefur það hlutverk fyrir okkar hönd að byggja upp þjónustu en gera það ekki tortyggilegt. Landssími Íslands hf. sér um að sinna þessari þjónustu um landið allt. Ég held að menn þurfi að gæta að sér. Samkeppnin er nauðsynleg, hún er af hinu góða en það þarf að sjá til þess að menn gangi þar eðlilega fram og sköpuð séu skilyrði, eins og við gerum með þessu frv., fyrir fyrirtæki eins og Landssímann sem hefur þá kvöð að sinna þjónustunni úti um land. Það er mikilvægt.