Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:23:29 (3270)

1999-12-17 16:23:29# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, Frsm. meiri hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:23]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson höfðum rætt lítillega brtt. hans vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins þar sem hann gerir tillögu um að þeir fjármunir sem fylgja frá Framleiðsluráði yfir til Bændasamtakanna renni í Lífeyrissjóð bænda innan tilgreindra tímamarka.

Það er rétt hjá honum sem hann sagði að ég var opinn fyrir þessari hugmynd vegna þess að Lífeyrissjóður bænda er afar bágur og er langt frá því að skila nokkrum verulegum tekjum þeim bændum sem njóta greiðslna frá honum. Hins vegar sýnist mér eðlilegt að þessir peningar frá Framleiðsluráði fylgi verkefnunum sem Bændasamtökin taka nú yfir. Meiningin er hins vegar ekki að skerða höfuðstólinn heldur nota vextina og þessi sjóður er og verður ágætlega ávaxtaður. En ég get vel hugsað mér það, og það er auðvitað undir bændum sjálfum komið og þá búnaðarþingi, hvort þeir leggi þessa peninga í lífeyrissjóð og þá hugsanlega ásamt mótframlagi frá ríkinu. Ég vona að þannig gætu bændur landsins fengið jafnvel helmingi meira eða meira en það út úr þessum peningum sem renna núna yfir til Bændasamtakanna frá Framleiðsluráði.