Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:56:38 (3281)

1999-12-17 16:56:38# 125. lþ. 48.31 fundur 291. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ellilífeyrisgreiðslur, samsköttun félaga og ríkisverðbréf) frv. 101/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sem fulltrúi í efh.- og viðskn. stend ég að frv. og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Þó kemur fram í greinargerð, eins og formaður efh.- og viðskn. nefndi, ákveðinn fyrirvari frá mér og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur sem ég aðeins vil gera að umræðuefni.

Meginefni þess sem ég ætla að gera að umræðuefni eru þeir þættir frv. sem lúta að því að afnema eða draga úr skattfrelsi eignarskattsfrjálsra verðbréfa og eins og formaður efh.- og viðskn. nefndi að reyna að loka fyrir þá áramótaútgerð sem þar fer fram vegna þess að þarna er ákveðin smuga fyrir þá sem vilja vera með undandrátt frá skatti sem margir hafa í verulegum mæli nýtt sér.

Þetta lýtur að því sem kemur fram í frv., þ.e. að skattfrelsi á ríkispappírum er frábrugðið skattfrelsi innstæðu í bönkum að ekki er gert að skilyrði að eignir þessar séu umfram skuldir og skortur á því skilyrði hefur það í för með sér að unnt er að stofna til skulda og kaupa ríkisverðbréf án þess að þau sæti eignarskattsálagningu. Og með ráðstöfununum mynda menn í raun eins konar tvöfalt eignarskattsfrelsi þar sem skuld vegna kaupa á ríkisbréfuma er frádráttarbær frá öðrum eignum um leið og ríkisbréfin eru eignarskattsfrjáls óháð skuldum.

Það er þessari undankomuleið frá skatti sem verið er að loka. Ljóst er að þetta hefur farið vaxandi. Ýmsir hafa reynt að nýta sér þá smugu og talið er að umfang þessara áramótaviðskipta, sem fara oft fram með því móti að menn fá yfirdráttarheimild í banka yfir áramótin og greiða hana síðan upp eftir áramót til að geta lækkað eignarskattsstofn sinn, geti numið, sumir segja 8--10 milljörðum en aðrir 10--15 milljörðum. Það munar því verulega um slíkt.

Við fórum yfir dreifingu eignarskattsfrjálsra verðbréfa við álagningu 1999 og það virðist vera að um 8.300 einstaklingar eigi eignarskattsfrjáls verðbréf og hjón og sambýlisfólk er um 11.600. Því er um að ræða um 20 þús. einstaklinga og hjón sem eiga eignarskattsfrjáls verðbréf.

Gert er ráð fyrir ákveðnu fríeignarmarki í frv. sem á aðeins að gilda í tvö ár, og þá er ég komin að þeim fyrirvara sem ég og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir höfum við þetta frv. Það er að þetta frímark í eignarskattinum sem sett er í ákvæði til bráðabirgða skuli vera tímabundið.

[17:00]

Þetta frímark er 2 milljónir hjá einstaklingum og 4 milljónir hjá hjónum. Miðað við þá dreifingu sem við höfum hér fyrir framan okkur við álagningu 1999 mun ákvæðið virka þannig að af tæplega 8.300 einstaklingum sem eiga eignarskattsfrjáls bréf falla um 6.400 undir þetta gólf í eignarskatti sem þýðir að það verður óbreytt hjá þeim þó að þetta frv. verði að lögum að ríkispappírar sem eru undir 2 milljónum hjá einstaklingum verða áfram eignarskattsfrjálsir. Um 80% einstaklinga búa þá sem sagt áfram við eignarskattsfrelsi ríkisverðbréfa meðan 20% þeirra einstaklinga sem eiga bréf yfir 2 millj. kr. munu geta lent í skatti með sín bréf.

Hið sama gildir með hjón því að af 11.600 hjónum munu 83% falla undir þetta frímark í eignarskatti sem eru 4 milljónir, en um 2.500 munu hugsanlega lenda í því að borga skatt af þessum bréfum. Því munu um 15.500 af um 20.000 áfram búa við eignarskattsfrelsi að því er varðar þessa ríkispappíra. Og eftir að við könnuðum málið kom í ljós að stór hluti þeirra sem eiga þessa pappíra eru ekkert í þessum leik eða þessari áramótaútgerð eins og hv. þm. kallaði það. Svo virðist vera, eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið, að margir séu í mánaðarlegri áskrift að kaupa ríkispappíra. Það er álitið að um 10 þúsund manns kaupi sér mánaðarlega áskrift í ríkispappírum og talið að það séu að meðaltali 10 þús. kr. sem þessir 10 þúsund einstaklingar leggja til hliðar í sparnaði með þessum hætti og þeir eru auðvitað ekkert að nýta sér skattfrelsi þessara bréfa með óeðlilegum hætti. Síðan á stór hluti, eins og hér kemur fram, eignir eða eignarskattsfrjáls verðbréf sem eru yfir 9,5 millj. kr. og þaðan af meira. Þetta eru um 345 manns og meðaleign þeirra er um 25 millj. kr. og samtals eign þessara 345 aðila í eignarskattsfrjálsum verðbréfum --- þetta eru einstaklingar --- er um 8,6 milljarðar.

Sama gildir um hjón. Þau sem eiga eignarskattsfrjáls verðbréf yfir 9,5 milljónum og þaðan af meira eiga samtals 23 milljarða í verðbréfaeign, að meðaltali um 28 milljónir hvert þessara hjóna. Og það verður að draga þá ályktun að hjá þeim sem eiga mikið í eignarskattsfrjálsum verðbréfum sé freistingin mjög mikil að nýta þessa skattasmugu sem þarna er verið að reyna að loka fyrir.

En fyrirvari okkar lýtur að því að við teljum ekki rétt, eins og fram kemur í þessu frv., að tímasetja þetta gólf, þ.e. að það falli út eftir tvö ár þannig að þá verði öll verðbréf eignarskattsfrjáls, þar sem stærsti hlutinn af því fólki sem telst undir þessu gólfi eða frímarki í eignarskatti er bara venjulegir sparendur sem eru leggja til hliðar 5 og 10 þúsund kr. á mánuði í sparnað og eignarskattsfrelsið er auðvitað hvati til sparnaðar meðan það er við lýði. Við teljum að það eigi að fara í heildarendurskoðun almennt á lögum að því er varðar eignarskatt. Við teljum ekki eðlilegt eða tímabært að binda nákvæmlega hvenær eignarskattsfrelsið á að falla út varðandi þessa venjulegu áskrifendur að spariskírteinum með tiltölulega litla fjárhæð heldur eigi það að skoðast í tengslum við heildarendurskoðun á eignarskatti, enda mun frítekjumarkið stuðla að nauðsynlegum sparnaði.

Herra forseti. Ég get nú stytt mál mitt. Það er fyrst og fremst svo að við teljum ekki rétt og eðlilegt að fara þannig að að tímabinda þetta frímark í eignarskatti. Ég treysti því að þessi breyting leiði ekki til vaxtahækkana eða affalla á húsbréfum. Um það hefur Seðlabankinn verið spurður og hann telur að breytingin komi til með að hafa óveruleg eða engin áhrif á afföll á húsbréfum. Það sama gildi um vextina, þ.e. að reyndar verði mjög lítil áhrif ef þá nokkur að því er varðar vaxtahækkanir.

Seðlabankinn var einnig spurður hvort þessi breyting gæti haft þau áhrif að menn færu að losa þessa eignarskattsfrjálsu pappíra og þeir telja að lítil hætta sé á því.

Varðandi afturvirknina sem nokkuð var til umræðu, þ.e. hvort þetta standist stjórnarskrána þar sem hér er um breytingu á skattalögum að ræða, þá kemur skýrt fram í greinargerðinni og það er byggt á greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, að álitið er að þetta standist þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Í trausti þess og í trausti þess að frv. hafi ekki nein áhrif að því er varðar vexti eða afföll á húsbréfum styð ég málið með þeim fyrirvara sem ég hef hér lýst. Það er í heildina mjög gott mál að loka fyrir þessa glufu eða smugu sem er til undandráttar frá skatti og mjög nauðsynlegt að gera það. En hitt er svo annað mál, herra forseti, að beiðni hæstv. fjmrh. um að nefndin flytji málið kom með mjög stuttum fyrirvara og það eru vinnubrögð sem ekki eru til fyrirmyndar.