Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:01:03 (3315)

1999-12-17 21:01:03# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:01]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi til mín spurningu hvort það hefði verið skoðað eitthvað sérstaklega við meðferð þessa máls hvort ástæða væri til að gera breytingar á lögunum í þá veru að greiða fulltrúum launafólks sem eiga sæti í starfsgreinaráðum sérstaklega fyrir þá vinnu. Það var ekki rætt og ég veit ekki til þess að sú umræða sé uppi í menntmrn. Það kann þó að vera án þess að ég hafi vitneskju um það. Ég get hins vegar greint frá því að þegar frv. um framhaldsskólann var í undirbúningi og smíðum, þá var auðvitað fyrst og fremst ætlunin með starfsgreinaráðunum að virkja samtök launafólks og atvinnurekenda, þ.e. fulltrúa atvinnulífsins til mikillar samvinnu við skólana um uppbyggingu starfsnáms. Þess vegna þótti skynsamlegt að þessir aðilar tækju þar með ábyrgð á sínum fulltrúum og mundu ákveða sjálfir hvort þeir sæju ástæðu til þess að þeir fengju greidd laun fyrir þetta eða hvernig því væri hagað af þeirra hálfu. Það er alveg ljóst að starfsgreinaráðunum er ætlað mjög stórt hlutverk við mótun innihalds starfsnáms.