Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:54:27 (3357)

1999-12-17 23:54:27# 125. lþ. 48.30 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er mér alveg sérstök ánægja að hafa tilefni til að fagna framlagningu tillögu frá hæstv. félmrh. Það geri ég svo sannarlega á þessu kvöldi. Ég hef hvatt til þess að mælt yrði fyrir frv. og því komið til nefndar, ekki bara vegna þess að það er þáttur í þeirri opinberu fjölskyldustefnu sem Alþingi hefur lagt til og ég mundi gjarnan hafa viljað sjá fleiri útfærslur á heldur og vegna þess hve langan tíma hefur tekið að ná þessu máli fram. Ég tek undir það með ráðherranum. Það eru fimm ár síðan fyrst var reynt að fleyta þessu máli gegnum ríkisstjórn og inn í þingið. Ég hef stutt ráðherrann með ráðum og dáð í því að ná þessu máli fram. Ég var farin að óttast um að það kæmi ekki fram á haustþinginu vegna þess að fyrir þinglok í vor náðist ekki að mæla fyrir því og koma því til nefndar. Ég hafði vonast til að það yrði lagt fram fyrst í október en ég er mjög ánægð með að okkur skuli takast að afgreiða það til nefndar fyrir jól.

Það er mjög merkilegt að það skuli vera grundvallarregla á íslenskum vinnumarkaði að atvinnurekendur þurfi ekki að gefa upp ástæðu uppsagnar. Margir hafa fengið að kenna á þeirri grundvallarreglu á íslenskum vinnumarkaði. Því miður hefur það ekki verið fátítt að fólk hafi verið kallað fyrir vinnuveitanda eða starfsmannastjóra, verið sagt upp störfum en þegar fólk í angist sinni spyr um ástæður þá liggur við að það nægi að segja: Af því bara. Þess vegna er mikilvægt að nú séu sett lög um að þetta sé ekki heimilt. Af því að þetta er hluti af samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem við erum aðilar að og höfum verið í áratugi --- hún var stofnuð árið 1919 --- þá vil ég gjarnan að fram komi hvaða þættir aðrir sem eru tilgreindir í þessari alþjóðasamþykkt, með leyfi forseta:

Að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð sem er í vinnu eða hyggur á að gegna launuðu starfi að ná fram þeim rétti sínum.

Að auðvelda starfsmönnum sem bera ábyrgð á fjölskyldu að hagnýta rétt sinn til að velja starf við hæfi.

Að taka tillit til þarfa þeirra að því er varðar kjör, vinnuskilyrði og félagslegt öryggi.

Að við skipulagningu á þjónustu sveitarfélaga skuli tekið tillit til þarfa starfsfólks með fjölskylduábyrgð, t.d. hvað varðar barnagæslu og fjölskylduaðstoð.

Að glæða skilning á meginreglunni um sömu möguleika og jafnrétti til handa vinnandi konum og körlum, m.a. með kynningarstarfi.

Að gera ráðstafanir á sviði starfsmenntunar til að gera starfsmönnum með fjölskylduábyrgð kleift að hefja og halda áfram þátttöku í atvinnulífinu, svo og að eiga afturkvæmt á vinnumarkað eftir fjarveru vegna þessarar ábyrgðar.

Að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar úr starfi.

Mat þeirra sem um véla í þessum efnum er að mikilvægt sé að Ísland uppfylli þessa samþykkt í eiginlega öllum atriðum, þó við getum rætt það í langan tíma hvort nóg sé að gert í hverjum þætti fyrir sig. En það er 8. gr., eins og kom fram hjá ráðherra, sem við höfum ekki uppfyllt, að tryggja að fjölskylduábyrgð sé ekki gild ástæða uppsagnar úr starfi. Aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar geta hrundið samþykktinni í framkvæmd ýmist með lögum eða reglugerðum, kjarasamningum, starfsreglum, gerðardómum og dómsúrskurðum eða á annan hátt sem venjur og hefðir í landinu gera mögulegt.

Frá því að samstarfsnefnd félmrn. og Samtaka aðila vinnumarkaðarins byrjaði að fjalla um samþykktina árið 1988 var ljóst að nauðsynlegt yrði að setja lög til að framfylgja ákvæði 8. gr. Það eru fyrst og fremst vinnuveitendasamtökin sem ekki hafa viljað að þessi 8. gr. yrði fullgild og þess vegna hefur gengið illa að ná sátt um fullgildinguna.

Menn geta velt því fyrir sér hvers vegna Vinnuveitendasambandið hefur verið svo þvert fyrir í þessum efnum. Vinnuveitendasamband Íslands hefur talið að fullgilding sé óþörf. Annars vegar er um að ræða það sjónarmið að fullgilding samþykktar nr. 156 skapi góðan bakhjarl við stefnumörkun hins opinbera í málefnum fjölskyldunnar, verndi launafólk sem ber fjölskylduábyrgð og sé hvatning til stjórnvalda að auðvelda konum að koma aftur til virkrar þátttöku á vinnumarkaði eftir að hafa tímabundið verið frá. Hins vegar er það sjónarmið að fullgilding sé óþörf, hægt sé að ná markmiðum hennar eftir öðrum leiðum, þ.e. með stefnu fyrirtækja í starfsmannamálum og öðru því sem hentar atvinnurekendum betur og setur þeim málið í sjálfsvald.

[24:00]

Þess vegna er mikilvægt að setja þetta ákvæði í lög og ég fagna því. Það er athyglisvert að ákvæðið er orðið nokkuð gamalt, ég held það sé frá 1981, en við höfum verið aðilar frá 1945 og það er búið að taka langan tíma að ná þessu fram. Þess vegna er ég afskaplega sátt nú. Hins vegar langar mig að spyrja ráðherrann hvort það geti verið að þurft hafi að semja um orðalag tillögunnar. Það er nefnilega svo að yfirleitt er talað um að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða uppsagnar úr starfi, en greinin í frv. hljóðar svo:

,,Óheimilt er að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.`` --- Og svo er útskýrt:

,,Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart ósjálfráða börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.´´

Það slær mig svolítið að sjá þetta orð ,,eingöngu`` vegna þess að það má hugsa sér að vinnuveitandi geti leyft sér, ef hann vill losna við starfsmann sem býr við einhverja erfiðleika svo sem að eiga langveikt barn eða annað sem gerir það að verkum að hann þarf að vera meira frá en sessunautur hans á viðkomandi vinnustað, að finna aðrar ástæður meðfram og þá er þetta ekki orðið eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber heldur bætist hún ofan á einhverja aðra tilgreinda þætti og gerir vinnuveitanda e.t.v. fært að fara fram hjá því lagaákvæði sem hér er sett fram með svo góðum hug. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að negla þennan texta niður með þessu orði, af því að um leið og ég sá greinina stakk það mig, eða hvort unnt sé af hálfu félmn. að skoða orðalag tillögugreinarinnar í frv. Með þeirri spurningu lýk ég orðum mínum í kvöld, herra forseti.