1999-12-18 00:32:13# 125. lþ. 48.13 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:32]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja, vegna ræðu hv. þm., að þetta frv. er lagt fram í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans og samkomulag stjórnarflokkanna sem gert var þegar flokkarnir náðu saman um stjórnarmyndun. Í sáttmálanum er því lýst að flokkarnir ætli, með leyfi forseta:

,,Að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands, skipan ráðuneyta og verkefni þeirra, þar sem hliðsjón verði höfð af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Í því samhengi munu stjórnarflokkarnir taka til endurskoðunar verkaskiptingu sín á milli. Fyrsta verkefnið verði að færa Byggðastofnun undir iðnrn. og sameina atvinnuþróunarstarfsemi á vegum þess, svo og að fella Seðlabanka Íslands undir forsrn. sem efnahagsráðuneyti.``

Rétt er að undirstrika að hér er um að ræða fyrsta lið í viðameiri aðgerðum sem áformað er að hrinda í framkvæmd á kjörtímabilinu um breytingar á verkaskiptingu og skipan Stjórnarráðsins í takt við þróunina frá því að menn tóku þessi mál síðast til endurskoðunar. Báðar þessar breytingar, að færa Seðlabankann undir forsrn. og Byggðastofnun undir iðnrn. eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum, verða að teljast eðlilegar. Ég get því ekki tekið undir það eða fallist á það sjónarmið hv. þm. að hér sé um að ræða hrossakaup. Það er auðvitað víðs fjarri og bara pólitísk talæfing í þessu samhengi. Hér er einfaldlega um að ræða eðlilegt skref í endurskipan í Stjórnarráði Íslands.

Alþingi mun að sjálfsögðu, hér eftir sem hingað til, hafa mikið að segja um þróun byggðamála með fjárveitingum. Í þessu frv. er skýrt tekið fram að auðvitað muni afl þess sem menn ætla að gera koma fram í fjárveitingum. Það mun auðvitað verða samkvæmt vilja Alþingis á hverjum tíma.