1999-12-18 00:56:08# 125. lþ. 48.13 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu rétt hjá hæstv. ræðumanni, ég ber í sjálfu sér takmarkað traust til hæstv. iðnrh. en ég tók það nú skýrt fram að það ætti ekki að láta svona málefni ráðast af mönnum sem koma og fara í ráðuneytum eins og annars staðar, heldur af efnislegum rökum fyrir því að hlutirnir væru með einhverjum tilteknum hætti eða ekki. Ég fór rækilega yfir það í ræðu minni við 1. umr. málsins og get alveg endurtekið það allt saman í langri ræðu hér á eftir, ef hv. þm. er að fara fram á það, hvað ég hef helst á móti þessu fyrirkomulagi. Það er það að stofnunin er í raun og veru veikt, þ.e. að hin þverpólitíska stjórn hennar er slegin af og ráðherra á að handvelja sjö plús sjö menn í það vera í stjórn og varastjórn stofnunarinnar, sem og ég tel arfavitlaust. Vilji menn koma á beinu og milliliðalausu stjórnsýslusambandi milli ráðherra og stofnunar eiga menn að gera þetta að hreinni venjulegri ríkisstofnun án stjórnar, bara framlengdum armi framkvæmdarvaldsins. Það er miklu hreinna og beinna. Þessi millileikur með handvalinni stjórn er bastarður í kerfinu og verður ekkert annað. Þetta og margt fleira gæti ég nefnt sem ég tel mæla gegn því að hafa þetta þarna. Auk þess tel ég miðað við verkaskiptingu málaflokka í Stjórnarráðinu ekki eðlilegt að henda þessu í eitt af atvinnuvegaráðuneytunum, því iðnrn. er þrátt fyrir allt fyrst og fremst eitt af atvinnuvegaráðuneytum landsins. Ég tel að félmrn. væri eðlilegri kostur ef ekki forsrn. sjálft, eða þá jafnvel frekar önnur atvinnuvegaráðuneyti en iðnrn., t.d. þau sem fara með höfuðatvinnuvegi landsbyggðarinnar. Það gætu vel verið rök fyrir því.

Varðandi geðprýði mína, herra forseti, að ekki liggi nógu vel á mér, þá þykir mér það leitt ef hv. ræðumanni finnst svo vera. Ég veit ekki alveg hvaða skýringar eru á því, hvort hún telur að þar sé bara um eðlislæga eiginleika að ræða eða hvort það sé hugsanlega hitt að mitt nánasta umhverfi hér í þingsalnum sé bara ekki nógu uppörvandi, þannig að af einhverjum undarlegum ástæðum þá búi ég ekki við nægjanlega jákvæða strauma, herra forseti, í mínu nærumhverfi í þingsalnum og það kunni að valda leiða mínum. (Gripið fram í: Við bætum úr því.)

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. dró nú þetta sæti hér í haust og verður að búa við það til vors.)