Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 13:57:12 (3431)

1999-12-18 13:57:12# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg með ólíkindum að hv. þm. ætlist til þess að alþingismaður nefni orkuverð í samningaviðræðum milli Landsvirkjunar annars vegar og innlendra fjárfesta hins vegar. Hér er verið að blanda saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Svarið er mjög einfalt. Verkefnið er á hendi Landsvirkjunar og hún hefur sett sér eins og henni ber og er lögbundið að skila málinu þannig að hún hafi hagnað af því. Það er verðið og hv. þm. getur ekki ætlast til þess að fá annað svar því að samningarnir eru ekki í höndum þingsins.

Varðandi það að hagfræðingar hafi fullyrt að verðið sé of lágt þá eru það sumir hagfræðingar. Hins vegar eru aðrir hagfræðingar, þar á meðal þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd málsins, þ.e. stjórn Landsvirkjunar og reiknimeistarar þeirra, sem hafa aðrar forsendur en hagfræðingarnir sem hv. þm. vísaði til.