Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:08:13 (3440)

1999-12-18 14:08:13# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞBack (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Þuríður Backman (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þá beiðni að iðnn. verði kölluð saman. Hér er komin upp alvarleg deila á milli iðnn. og formanns hennar um aðkomu skipulagsstjóra ríkisins að þessu máli. Ég er hér með skýrslu eignarhaldsfélagsins Hrauns varðandi mat á umhverfisáhrifum 480 þús. tonna álvers. Þetta er frummatsskýrslan. Farið var fram á að öll fyrirhuguð stækkun yrði metin í einum pakka. Skipulagsstjóri óskaði eftir að fyrsti hlutinn yrði eingöngu tekinn. Á það var ekki fallist.

Mig grunaði að þarna lægi fiskur undir steini þegar taka átti alla stækkunina á þessu stigi. Lög um mat á umhverfisáhrifum eru það ný og þetta er það mikið verkefni að hugsanlega yrðu önnur vinnubrögð notuð þegar kæmi að stækkunum álversins. Ég skil því alveg sjónarmið skipulagsstjóra að vilja taka fyrsta hluta. Það verður að fá úr því skorið hvernig þessi mál liggja.

Ég tek undir það mat skipulagsstjóra að í svona stórum framkvæmdum sé eðlilegt að meta áhrifin í heild, virkjunina, línurnar, vegaframkvæmdirnar og álverið í einum pakka við mat á umhverfisáhrifum. Þá fær maður þessa heildarsýn. En lögin leyfa það ekki og það er eitt af mörgu sem við þurfum að skoða í lögunum varðandi breytingar. Þau leyfa það ekki í dag. Ég tek undir þá kröfu að iðnn. verði kölluð saman.