Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:12:38 (3474)

1999-12-18 17:12:38# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. telur sig sleppa billega frá þessu. En hún svaraði ekki þeirri spurningu hvort hún mundi samþykkja það að Kárahnúkavirkjun væri án umhverfismats þannig að hægt væri að standa við loforð um atvinnuuppbyggingu á Austfjörðum. Hv. þm. lýsti því ekki yfir þannig að ég er alveg handviss um að hv. þm. var ekki tilbúinn í nokkurt einasta samkomulag. Hún svaraði þessu sjálf, herra forseti, og þess vegna segi ég: Í rauninni hefur enginn skipt um skoðun nema hugsanlega alþýðuflokksmennirnir sem lofuðu því á sínum tíma og margir af þeim komust inn á þing á sínum tíma vegna þess að það átti að virkja Fljótsdalinn til að byggja upp álver á Keilisnesi. Þá var allt í lagi að koma af stað Kárahnúkavirkjun og þótti öllum bara sjálfsagt.

Hv. þm. ætti að rifja þetta aðeins upp þannig að hún kunni forsöguna. Það eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem eru að breyta um skoðun en reyndar hefur ekki komið fram hvernig þeir ætla að greiða atkvæði.