Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 18:58:45 (3503)

1999-12-18 18:58:45# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum hafa tvennt alveg ljóst. Á fundi iðnn. gaf ég ekki upp neina afstöðu til þessa máls og þaðan af síður hvernig ég mundi greiða atkvæði. Ég mótmæli þeim málflutningi að bera slíkt inn í þingsalinn og þá heldur að gera mér upp einhverjar skoðanir. (KPál: Er þetta viðkvæmt?)

Í öðru lagi vil ég láta koma fram að í skýrslu Ágústs H. Bjarnasonar stendur að hann hafi ekki komist inn á Eyjabakka vegna vatnavaxta. (Gripið fram í: Hann hefur mótmælt því.) Það kann að vera að hann hafi komist þangað en það var ekki í þeirri skýrslu sem við höfðum til grundvallar þegar við gengum frá okkar áliti. En það kann vel að vera að við höfum frétt það síðar eftir að þetta álit var samið. (KPál: Þetta hefur þá verið kjaftasaga.) Þetta kom sem sagt ekki fram í skýrslunni hans en kom e.t.v. fram síðar. Við höfum í engu haft hann að ómerkingi og ég virði það ef hann hefur farið þangað. En það kom með engum hætti fram og við höfum á engan hátt misgjört við þann ágæta mann. (KPál: Það stendur hérna í áliti 2. minni hluta.)