Gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:15:01 (3512)

1999-12-20 10:15:01# 125. lþ. 50.91 fundur 242#B gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:15]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég tók eftir því að í síðari ræðu sinni nefndi hv. þm. Össur Skarphéðinsson ekki einu orði þau rök sem ég dró fram í málinu. (Gripið fram í.) Það var ekki áburður. Í rauninni var ekki gert annað en að vitna til opinberra gagna, til skýrslu. Ég dró fram gögn sem eru í sjálfri skýrslunni, annars vegar það að í skýrslunni er fullyrt að framkvæmdaraðili hafi ekki fallist á það sjónarmið að taka bæri álverið í áföngum og taka fyrst 120 þús. tonnin. Hins vegar koma fram andstæð sjónarmið í sjálfri skýrslunni. Það er ekki minn málatilbúnaður. Ég er einfaldlega að vitna í opinbert gagn, þessa skýrslu. Mér finnst það skipta höfuðmáli.

Í annan stað vil ég nefna að ef einhver getur bent mér á hvar í skýrslunni, hinu opinbera plaggi, niðurlagsorð í bréfi Hollustuverndar frá 6. desember eru nefnd, þá yrði ég afskaplega þakklátur fyrir það. Ég hef lesið skýrsluna aftur og aftur, en ég finn ekki þetta grundvallaratriði þar sem Hollustuvernd telur eðlilegt að hefja útgáfu starfsleyfisins. Þetta er mikilvægt, herra forseti, vegna þess að Hollustuvernd fjallar um mengunarþáttinn og af 13 úrskurðaratriðum má segja að níu atriði heyri beinlínis undir Hollustuvernd. Geti einhver bent mér á hvar niðurlagsorð Hollustuverndar koma fram í skýrslunni yrði ég mjög þakklátur fyrir það. Mér hefur ekki tekist að finna þau. Ég hafna því að þetta sé persónuleg árás. Ég notast einungis við opinbera skýrslu og ég er að gagnrýna hana og það eiga þingmenn að gera. En þeir eiga ekki að fara út í skæting eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerir sig sekan um nú sem oft áður.