Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 11:51:06 (3522)

1999-12-20 11:51:06# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[11:51]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Síðari umr. um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun fer fram þegar komið er fast að jólum og verður afgreiðsla hennar því eins og jólagjöf til þjóðarinnar. Sá hængur er þó á gjöfinni að henni er ekki hægt að skila ef tekið er við henni og það sem meira er, þjóðin á eftir að fá fleiri slíkar á næstu árum því jólagjöfin er bundin, eins og á raðgreiðslum, til frekari framkvæmda við virkjanir og álver. Að lokum verður þjóðin búin að fá þann stærsta jólapakka sem hún hefur nokkurn tíma áður fengið og mun að öllum líkindum ekki fá annan eins langt fram á næsta árþúsund.

Hér liggur fyrir þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Hún er byggð á frummatsskýrslu Landsvirkjunar, mikilli skýrslu um umhverfi og umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar. En hér er líka allt undir. Við höfum fengið nál. frá iðnn., frá meiri hluta iðnn., frá 1. minni hluta iðnn. og frá 2. minni hluta iðnn. Umhvn. skilaði sínu áliti til iðnn. og hér er búið að fara vel yfir álit umhvn., bæði efnislega og eins afgreiðslu. Ég vil sérstaklega taka það fram varðandi niðurstöðu umhvn. að verið er að reyna að gera það tortryggilegt að fimm nefndarmenn skuli ekki hafa verið saman á einu áliti. En allir vita að flokkshollusta tveggja þingmanna sem eru í stjórnarmeirihlutanum á þingi var svo mikil að þeir vildu vera sér með álit, en álitið var unnið að fullu af þeim fimm þingmönnum sem skiluðu, að mínu mati þá, meirihlutaáliti umhvn. á þann veg að þessi framkvæmd skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Það er verið að reyna að gera þetta tortryggilegt, þ.e. að þar sem þingmenn voru tveir og svo þrír saman, að þá sé þetta ekki meiri hluti. (Gripið fram í.) Undir álit 1. minni hluta rita fjórir hv. þingmenn og það er orðinn meiri hluti að áliti margra. En þegar ég ber saman töluna fjóra og töluna fimm þá er nú talan fimm hærri í mínum huga. (KPál: Ætlar forseti að leyfa ...)

(Forseti (ÍGP): Forseti vill biðja hv. þm. um að gefa ræðumanni færi á því að halda ræðunni áfram.)

Hv. þm. Kristján Pálsson hefur verið hvað ötulastur við að reyna að snúa þessu út og suður. Hann hefur einhverja sérstaka náttúru til þess sem ég skil ekki. (Gripið fram í: Honum líður eitthvað illa.)

Um nefndarálit iðnn. vil ég segja að iðnn. hefur afgreitt tillöguna um stuðning Alþingis við Fljótsdalsvirkjun. Meiri hlutinn í nefndinni tekur undir óskir um að Landsvirkjun geri áætlun um aðgerðir til mótvægis við það náttúrutjón sem verður af Eyjabakkalóni og um endurheimt gróðurs. Þetta var samþykkt með sex atkvæðum stjórnarliða gegn atkvæði Árna Steinars Jóhannssonar sem skilar sérnefndar\-áliti. Tveir fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá. Í nefndaráliti þeirra kemur fram að þeir vilja að ekki verði farið í þessar framkvæmdir nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. En miðað við þá skoðun nefnarmanna varð ég satt að segja mjög undrandi að þeir skyldu sitja hjá við afgreiðsluna þar sem ekki á að hlusta á þessa kröfu um að nefnd framkvæmd fari í margumrætt mat á umhverfisáhrifum.

Þetta hefur komið vel fram í máli manna og er í sjálfu sér ekkert fleira um það að segja. En ég lýsi undrun minni á þeirri afstöðu að afgreiða þetta svona. (Gripið fram í.) Ég er að tala um afgreiðslu úr iðnn.

Herra forseti. Í skjóli hæstv. ríkisstjórnar er þessari tillögu rutt fram fyrir þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem lögð var fram á fyrstu dögum þingsins, þáltill. um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Hún hefur ekki einu sinni fengist afgreidd út úr umhvn. þó að allar forsendur til þess séu fyrir hendi. Í þeirri tillögu kemur skýrt fram sú krafa að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjist ekki fyrr en að undangengnu mati á umhverfisáhrifum.

Þáltill. snýr að verklagi sem komið hefur verið á með lögum nr. 63/1993 og er til að draga úr umhverfisspjöllum og skaðlegum áhrifum á mannlíf og búsetu. Þetta er vinnuferli sem við höfum til að leita fleiri valkosta ef í ljós kemur að frumhönnun framkvæmda er að einhverju leyti ábótavant, sama hvort það snýr að umhverfinu, náttúrunni eða mannlífinu. Undir þessa þáltill. taka bæði þeir sem vilja vernda svæðið og ekki síður þeir sem vilja virkja, en gera það með varúð svo ekki hljótist óbætanlegur skaði af.

[12:00]

Það að hleypa þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum ekki út úr umhvn. er valdníðsla, herra forseti, bæði út frá því hvenær þessar tvær tillögur voru lagðar fyrir þingið og ekki síður eðli málsins samkvæmt. Þáltill. okkar hefði átt að koma fyrir þingið á undan þeirri tillögu sem nú er fjallað um. Till. til þál. um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar sem við, þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, lögðum fram var lögð fram í fjórða sinn og ekki að ástæðulausu. Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi. Ég er viss um að margir hefðu viljað nú að hlustað hefði verið á þessa þáltill. þegar hún kom fyrst fram. Þannig hefði unnist tími til að undirbúa þetta stóra mál eins og stór hluti þjóðarinnar óskar eftir að gert verði. Ég ætla hins vegar að vitna í hluta úr grg. með þáltill., um hvers vegna sé farið fram á þetta. Þar er vitnað í sérstaka umsögn Skipulagsstofnunar, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun telur að í ljósi breyttra viðhorfa og löggjafar í umhverfismálum sé eðlilegt að fram fari formlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem háðar eru mati samkvæmt 5. gr. laga nr. 63/1993, þrátt fyrir að þær falli undir II bráðabirgðaákvæði þeirra.``

Enn fremur segir í grg. með þáltill.:

,,Í nýrri umsögn stofnunarinnar, dags. 16. júlí 1999, er ekki tekin afstaða til þess hvort virkjunin skuli sæta lögformlegu mati, en þar kemur fram að samvinnunefndin sem vann að gerð svæðisskipulags miðhálendisins og staðfest var af umhverfisráðherra 10. maí 1999, gerði í úrskurði sínum fyrirvara við virkjanaframkvæmdirnar. Að honum er vikið síðar í greinargerð þessari. En þá kemur fram nýr flötur í málinu og skal nú vitnað orðrétt í umsögn Skipulagsstofnunar. Þar segir:

,,Ekki er fyrir hendi aðalskipulag Fljótsdalshrepps en áður en hægt verður að hefja framkvæmdir við virkjun þarf sveitarstjórn að auglýsa tillögu að deiliskipulagi virkjunarsvæðisins. Það verður síðan hlutverk sveitarstjórnar að fjalla um og svara þeim athugasemdum sem kunna að berast við deiliskipulagstillöguna. Samþykki sveitarstjórn deiliskipulagið sendir hún það til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Þegar deiliskipulag hefur verið samþykkt getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi fyrir virkjun, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Fari ekki fram mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt lögum nr. 63/1993 má ætla að sú umræða sem hefði orðið í tengslum við það, verði þess í stað í tengslum við deiliskipulagið og það verði því hlutverk Fljótsdalshrepps en ekki Skipulagsstofnunar að vinna úr hugsanlegum athugasemdum.``

Í þessu sambandi ber að athuga að allir landsmenn koma til með að hafa rétt til athugasemda um deiliskipulagstillögu sveitarstjórnarinnar og síðan eftir afgreiðslu sveitarstjórnar, kærurétt til sérstakrar úrskurðarnefndar skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Sú úrskurðarnefnd hefði svo síðasta orðið á stjórnsýslustigi því að úrskurðir hennar eru fullnaðarúrskurðir samkvæmt lögunum og verður ekki skotið til umhverfisráðherra. Þeir sem vefengdu niðurstöðu nefndarinnar yrðu því að leita til dómstóla.``

Ég dreg fram þessa þáltill. og grg. með henni því að málið er ekki svo einfalt að nóg sé að samþykkja þá þáltill. sem við erum að fjalla um hér og þar með renni þetta allt í gegn. Ýmis mál eru enn óunnin.

Málsmeðferðin öll hefur klofið þjóðina upp í andstæðar fylkingar sem ekki ná saman. Rök duga ekki lengur. Þau eru á þrotum og tilfinningarnar ráða einar. Fylkingum slær saman því að annarri finnst að ef menn vilji ekki fara að vilja ríkisstjórnarinnar, ganga að tilboði Norsk Hydro um þátttöku í rekstri álvers við Reyðarfjörð, þá séu menn á móti Austfirðingum og því að þeir fái það sem þeim ber af stóriðju og stórframkvæmdum.

Virkjanasinnar, sérstaklega á Austurlandi, telja að nú sé komið að þeim eftir 20 ára bið en þá loksins að komið sé að þeim þurfi allt í einu að vernda náttúruna, Eyjabakkana, það forarsvæði sem enginn hefur haft áhuga á að skoða fram til þessa. Sumum finnst þó eftirsjá að svæðinu en því verði því miður að fórna því til að fá virkjunina og álverið.

Þegar menn eru svo ákveðnir í að halda blindandi áfram hvað sem það kostar horfa menn fram hjá þörf á frekari rannsóknum og því að leita betri lausna í hönnun og umhverfisvernd. Andstæðar fylkingar hafa myndast milli virkjanasinna, sérstaklega á landsbyggðinni, og svokallaðra umhverfissinna, þá sérstaklega menntamanna og listamanna. Eða, herra forseti, eru þetta ímyndaðir andstæðingar þegar ekki er hægt að takast á málefnalega um mismunandi þarfir, kröfur og væntingar? Ef þú ert ekki með mér þá ertu á móti mér. Þeir sem vilja að Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum eru að tefja málið og spilla fyrir svo ekkert verði af framkvæmdum. Þeir eru því allir á móti virkjuninni og álverinu. Þeir nota þessa málsmeðferð til að hylma yfir raunveruleg markmið sín.

Þessi málflutningur er mjög óréttmætur gagnvart þeim fjölmörgu Íslendingum sem vilja að virkjað sé áfram fyrir álver eða aðra stóriðju á Íslandi en vilja ekki spilla náttúrunni meira en nauðsyn krefur og vilja að leitað sé sátta hjá þjóðinni um svo stórar framkvæmdir.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort allir gera sér ljóst hve risastórt verkefni það er sem við mundum hefja með því að samþykkja þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Í hugum margra ætlum við að byggja hér álver eins og eru í Noregi en því miður er það ekki svo hvað stærðina snertir. Hér er um að ræða byggingu sem á að hýsa eitt stærsta álver í heimi. Við munum nota til þessa eina álvers orku sem samsvarar u.þ.b. allri þeirri raforku sem við notum í dag.

Í Noregi nemur álframleiðslan um 900 þús. tonnum á ári og framleiðslan fer fram í sjö verksmiðjum vítt og breitt um Noreg. Fyrirhuguð verksmiðja á Reyðarfirði á fullbyggð að framleiða um 480 þús. tonn, þ.e. að meðaltali sama og tæplega fjórar verksmiðjur framleiða samanlagt í Noregi. Það er ekki áhugi hjá Norsk Hydro að vera með í rekstri álsversins á Reyðarfirði nema að tryggt sé að verksmiðjan verði stækkuð í nánustu framtíð upp í þessi 480 þúsund tonn. Það er þrefalt stærra álver en álverið í Straumsvík er í dag. Fyrstu hugmyndir þeirra hjá Norsk Hydro voru um þátttöku í rekstri á 720 þús. tonna álveri. Þær hugmyndir náðu ekki fram að ganga af ástæðum sem ég þekki ekki en e.t.v hefur staðið í mönnum að láta LSD eða ,,langstærsta drauminn`` komast í framkvæmd, þ.e. virkja allt fallvatn norðan jökla að Jökulsá á Fjöllum meðtalinni.

Menn hafa bundið sig mjög í samþykkt sem er kennd við Hallormsstaðaryfirlýsinguna, þ.e. framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Norsk Hydro um koma á þessu stóra álveri og virkjun því tengdu. Allt hangir þetta saman, engin verður Fljótsdalsvirkjun nema af álverinu verði. Eins og hér hefur margoft komið fram hefur hins vegar ekki reynt á það að leita eftir því við Norsk Hydro að fresta um einhvern tíma framkvæmdum til að vinna málið betur hér heima. Það sem verra er, misvísandi upplýsingar hafa borist frá Norsk Hydro um áhuga þeirra á frekari rannsóknum. Þaðan hafa komið yfirlýsingar um að þeir hefðu ekkert á móti áframhaldandi rannsóknum þótt framkvæmdaáætlun tefðist eitthvað vegna þeirra. Hins vegar hafa komið yfirlýsingar um að það eigi að halda sig við þessar framkvæmdaáætlun.

Því var það miður að ekkert skuli hafa orðið af því að hv. iðnn. og umhvn. fengju að kalla til fulltrúa frá Norsk Hydro til að fá upplýsingar um möguleika á því að fresta þessari framkvæmdaáætlun eins og hún liggur fyrir í dag.

Herra forseti. Því miður virðist sá áróður hafa hrifið marga og sannfært að álverið á Reyðarfirði verði aldrei stærra en 120 þús. tonn. Ef af þessum framkvæmdum verður, sem allt bendir nú til, vona ég fyrir hönd okkar Austfirðinga að álverið verði aldrei stærra. Því miður er það blekking. Í síðasta mánuði var verið að vega og meta frummatsskýrslu 480 þús. tonna álvers á Reyðarfirði enda er ekki áhugi hjá Norsk Hydro að fara út í þessa miklu framkvæmd nema þeir hafi loforð um stækkun.

Þetta er blekking af verstu gerð, sett í gang til að hnappa fólki saman um framkvæmdir sem vissulega hafa jákvæð áhrif á byggingartíma og eru viðráðanlegri í fámennu samfélagi eftir að rekstur álversins er hafinn. Fólk er því ekki tilbúið til þess að líta á málið til enda og gera kröfur um mótvægisaðgerðir vegna þeirra áhrifa sem framkvæmdirnar hafa bæði á mannlíf og umhverfi.

Í úrskurði skipulagsstjóra varðandi frummatsskýrslu álversins kemur fram að mjög margt þurfi að athuga betur. Það er sett fram í 13 liðum og hefur verið farið yfir það hér. Ég ætla því ekki að endurtaka það. Þar eru liðir sem snúa að byggðaþróun og búsetu fyrir utan umhverfisáhrif og mengunarhættu. Ábendingar þessar ber að taka alvarlega.

Herra forseti. Hér er ábyrgð sveitarstjórnarmanna mikil. Samband sveitarfélaga á Austurlandi ásamt mörgum einstökum sveitarstjórnum hefur stutt framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Að mörgu leyti er þetta skiljanleg afstaða í ljósi sögunnar. Menn telja að nú sé loksins komið að Austurlandi þegar virkja á til stóriðju og að þar eigi að staðsetja næstu stóriðju. Málinu er stillt upp sem stærsta byggðamáli sem völ er á, ekkert eitt verkefni hafi eins mikil áhrif og þetta.

En er þetta byggðamál? Spurningin er hvort þetta risaverkefni sé það sem Austfirðingar hafa verið að bíða eftir. Sjá menn ekki fyrir sér lítið, um 120 þús. tonna álver og rekstur sem félli vel inn í samfélagið og hleypti lífi í athafnalífið á byggingartímanum, fengi fólk til að flytja austur og setjast þar að, hefði áhrif á búferlaflutninga að austan og styddi jákvæða íbúaþróun til framtíðar? Er það ekki þetta sem menn hafa í huga þegar þeir biðja um álver? Er það ekki lítið álver? Þetta er hin jákvæða framtíðarsýn sem svo margir sjá í rekstri álvers á Reyðarfirði.

Það er talið hagstætt að leggja í stórverkefni í samfélaginu þegar slaki er á efnahag þjóðarinnar og atvinnuleysi ríkir. En nú er hvorugt til staðar. Það eru þensluáhrif í þjóðfélaginu og varúðarráðstafanir í gangi, bæði við fjárlagagerð hv. Alþingis og eins hafa Þjóðhagsstofnun og fleiri aðilar varað við að þensla sé of mikil, það geti leitt til verðbólgu og óheilla fyrir þjóðina. Það er ekki atvinnuleysi, það vantar fólk til starfa. Þannig að burt séð frá þessum stórframkvæmdum þá hlýt ég að spyrja: Er þetta rétti tíminn til þess að setja þær í gang?

Herra forseti. Heyra menn ekki aðvörunarbjöllur klingja? Er þetta allt jafnhagstætt fyrir íbúa Austurlands og menn vilja vera láta? Eða þora menn ekki að segja neitt af ótta við að hætt verði við allt saman? Sé svo er frekari ástæða til að hafa áhyggjur. Menn hætta ekki við arðvænlegar fjárfestingar og gróðavon þó eitthvað verði að athuga betur og endurskoða með hagsmuni allra í huga, í þessu máli sérstaklega Austfirðinga og náttúru landsins.

[12:15]

Ég tek undir aðvörunarorð fyrri ræðumanna sem hafa bent á að það sé athugunarvert hvers vegna Norsk Hydro hefur dregið sig svo út úr þátttöku í þessu stóra fyrirtæki eins og komið hefur fram, að þeir hafi ekki áhuga í dag á að vera eignaraðilar nema í um 20%. Ef þeir teldu að þetta væri jafnmikil gróðavon og borið er á borð fyrir okkur finnst manni einkennilegt ef þeir vildu ekki græða meira og eiga þá meira í verksmiðjunni.

Að mínu mati hvílir mikil ábyrgð á sveitarstjórnarmönnum. Ekki síst verða þeir að taka tillit til annarra atvinnugreina, svo sem ferðaþjónustu sem spáð er mestum vexti og gjaldeyristekjum þjóðarinnar í framtíðinni. Ísland hefur laðað til sín ferðamenn vegna einstæðrar náttúru og sá fjöldi á eftir að aukast í framtíðinni því víðerni eru orðin fágæt í iðnvæddum heimi. Því er mikilvægt að farið sé með gát þegar hróflað er við öræfunum og þeirri ímynd sem fólk sækist eftir, víðernum, kyrrð og jafnvel ögrun, hvort sem það eru Íslendingar eða erlendir ferðamenn. Við búum á eyju langt norður í Atlantshafi og högum okkur oft eins og engum komi það við hvað við gerum hér heima fyrir.

En því miður gengur þetta ekki lengur. Heimurinn fylgist með okkur og það getur verið dýrt fyrir litla þjóð að misstíga sig í málum sem óneitanlega hafa áhrif út fyrir landsteinana. Þessar stórframkvæmdir koma öðrum einnig við út frá náttúruverndar- og umhverfisverndarsjónarmiðum.

Herra forseti. Því skil ég ekki ábyrgðarleysi sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, þrátt fyrir áhuga þeirra á að álver rísi á Reyðarfirði, að þeir skuli ekki krefjast mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar til þess að reyna að tryggja að allt verði gert til að draga úr umhverfisspjöllum og að farið verði í markvissar mótvægisaðgerðir. Þegar hefur komið fram að skýrsla Landsvirkjunar er ófullnægjandi hvað varðar rannsóknir á gróðri og dýralífi, og má bæta búsetuþróun við, eins og ég nefndi áðan.

Ef ekki verður farið í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar verður ekki farið í þessa vinnu og skaðinn kemur til með að bitna einna harðast á Austfirðingum sjálfum. Ábyrgð sveitarstjórnarmanna er því mikil í þessu máli og ég tel að þeir hafi látið blindast af framkvæmdaþörf þegar litið er á málið í heild, sérstaklega út frá byggða- og umhverfissjónarmiðum.

Herra forseti. Málið hefur verið sett í algjöra sjálfheldu vegna pólitískrar þrjósku. Landsvirkjun getur ekki breytt hönnun virkjunarinnar frá því sem nú er þó vitað sé að aðrir kostir séu hentugri, ýmist fyrir virkjunaraðilann eða út frá umhverfisverndarsjónarmiðum. Herra forseti. Sannarlega eru fjölmargir sem eru á móti frekari mengandi stóriðju á Austurlandi, sem telja að ekki sé vogandi af mörgum ástæðum að halda áfram stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar alveg óháð því hvar á landinu reisa eigi álverin eða aðrar mengandi stóriðjur.

Í þeim hópi er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og lögðu hv. þm. hreyfingarinnar Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Steinar Jóhannsson, fram þáltill. um sjálfbæra orkustefnu í upphafi þingsins á þskj. 13 sem hefur heldur ekki verið afgreidd úr umhvn. Þessum vinnubrögðum og valdníðslu mótmælum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs því að bæði kom tillagan fram á undan þeirri tillögu sem við erum að fjalla um núna, eða í upphafi þings, og ekki síður vegna þess að efnislega á að fjalla um hana á undan þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, framkvæmda sem eru upphaf að raforkuöflun til eins fyrirtækis, raforkuöflunar sem svarar til allrar raforkunotkunar okkar í dag.

Hvers vegna lögðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fram þessa tillögu? Vegna þess að þetta er sú sýn sem við höfum til þess að stuðla að sjálfbærri þróun sem ríkisstjórn landsins hefur tekið undir og markað sér stefnu í, en undanskilur síðan þennan stóra þátt. Ég ætla að fá að lesa örlítið úr þessari þáltill.

(Forseti (ÍGP): Þingmaðurinn fær góðfúslegt leyfi til þess.)

Afsakið, með leyfi forseta, sem ég var ekki búin að biðja um því ég var ekki búin að finna það sem ég ætlaði að lesa. En upphaf þáltill. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela iðnrh. að undirbúa, í samvinnu við umhvrh. og þingflokka, sjálfbæra íslenska orkustefnu sem hafi að markmiði:

að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi,

að dregið verði markvisst úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda,

að ríkulegt tillit verði tekið til náttúruverndar og umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Forsenda þessarar stefnumótunar verði að Ísland gerist fullgildur aðili að Kyoto-bókuninni frá 12. desember 1997 við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Á meðan þessi stefna er í mótun verði ekki ráðist í orkufrekan iðnað umfram það sem þegar hefur verið samið um og frestað að innleiða hér reglur Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum.``

Það virðist samdóma mat hæstv. ríkisstjórnar að Landsvirkjun hafi fullt leyfi til að hefja framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun án þess að setja fyrirhugaða virkjun í mat á umhverfisáhrifum. Það sem meira er, hæstv. ríkisstjórn hefur engan áhuga á því að gera neinar þær ráðstafanir sem þyrfti til að undirbúa virkjunarframkvæmdir með nútímavinnubrögðum. Fullgild rök hafa verið færð fyrir því að lagaleg staða frekari framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 63/1993, sé ekki fyrir hendi eins og ríkisstjórnin heldur fast fram.

En með vísan til umsagnar Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings, sem birt er sem fskj. með nál. iðnn., kemur hið gagnstæða fram og vísa ég til álits hennar.

Herra forseti. Það kemur fram í umsögn Aðalheiðar, svo ég dragi fram helstu drættina, að ekki er sjálfgefið hvaða leyfi er endanlegt leyfi til framkvæmda. Og það vantar framkvæmdaleyfi, það vantar aðalskipulag af svæðinu og það vantar deiliskipulag. Fljótsdalshreppur hefur tekið þátt í svæðisskipulagi af héraðssvæðinu öllu og það stóð til að svæðisskipulagið yrði látið gilda sem aðalskipulag, en því miður er svæðisskipulaginu ekki lokið og því liggur nú á að til verði aðalskipulag yfir Fljótsdalshrepp. Það vantar sem sé og deiliskipulagið einnig.

Það má líka vísa til svæðisskipulags miðhálendisins sem nýlega hefur verið samþykkt. Þar var gerður fyrirvari um uppistöðulón á Eyjabökkum. Það er því margt að athuga.

Herra forseti. Sannarlega vilja margir segja skilið við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og nýta landið á annan hátt en stóriðjustefna krefst. Meðal þeirra fjölmörgu eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafa, ásamt öðrum þeim tillögum sem ég hef þegar lýst, lagt fram þáltill. um stofnun Snæfellsþjóðgarðs og að nýta svæðið sem lagt er til að fari undir uppistöðulón og áveitur til annarra arðvænlegra nota.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég vísa til þáltill., en hún er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir stofnun Snæfellsþjóðgarðs sem taki til Snæfells og öræfanna umhverfis að meðtöldum Eyjabökkum og Jökulsá í Fljótsdal að mörkum heimalanda jarða í Norðurdal.``

Því miður er með þessa þáltill. eins og hinar að hún hefur ekki fengist afgreidd úr umhvn. Þarna er verið að leggja til aðra landnotkun og því hefði hún að mínu mati og annarra átt að vera til umræðu samhliða þessu stóra máli.

Herra forseti. Í máli mínu hef ég farið nokkrum orðum um þætti sem snúa að náttúruvernd og byggðasjónarmiðum og annarri nýtingu á Eyjabökkum og víðernum norðan Vatnajökuls. Arðsemi framkvæmdanna er sá þáttur sem lítið hefur verið fjallað um í öllum þeim fjölda greina sem birst hafa um þetta umdeilda mál. Þó hafa komið fram greinar eftir ábyrga aðila sem draga í efa að hægt verði að fá svo hátt raforkuverð að framkvæmdirnar, þ.e. virkjanir og álver ásamt rekstri, komi til með að skila ásættanlegum arði. Og það sem alvarlegast er: Að öllum líkindum á þetta eftir að verða þungur baggi á íslenskum fjárfestum og á lífeyrissjóðunum í landinu ef þeir verða hluthafar í álverinu.

Að minnsta kosti virðist Norsk Hydro hafa reiknað sig út úr rekstri því eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, eftir síðustu upplýsingum, ætlar fyrirtækið ekki að taka neina áhættu, greiða um 20% með tækniþekkingu, ráða framleiðslu og sölu, en taka enga áhættu, þ.e. á mannamáli að fleyta rjómann ofan af öllu saman.

Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir mikil skrif í allt sumar um þetta stóra mál í blöðum og tímaritum, útvarpserindi, sjónvarpsþætti og svo mætti lengi telja, þá hafa ekki mjög margir fjallað um arðsemisþátt virkjunarinnar. Ég dreg ekki í efa að þeir sem hafa skrifað greinar um arðsemismat og hafa lagst yfir útreikninga hafi til þess þekkingu. En nú hafa komið fram þau sjónarmið að mjög hávær aðvörunartónn er varðandi málið í heild, meira að segja svo alvarlegar aðvaranir að þrátt fyrir að í útreikningum sé miðað við lægsta og hæsta fáanlega rafmagnsverð sé ekki hægt að reikna gróða inn í þetta fyrirtæki. Það er náttúrlega erfitt að segja nákvæmlega í þessum ræðustól, eins og hæstv. ráðherra hefur bent á, hvað rafmagnsverðið eigi að vera, en ég ætla rétt að vona að búið verði að reikna út hvað það þurfi að vera áður en samið er. Það er til lítils að semja og setjast síðan niður og athuga hvað það þurfi að vera út frá raforkuverðinu. (KHG: Það er fyrirtækið sem sér um þessa hluti, Landsvirkjun.) Það er fyrirtækið sem sér um þessa hluti, það er Landsvirkjun sem reiknar út eftir að búið er að semja. En þá er það of seint. (KHG: Það eru þeir sem semja.)

[12:30]

Að lokum, herra forseti. Í seinni ræðu minni mun ég koma inn á fleiri atriði, en í þeim málum sem ég hef farið yfir sem og í máli mínu öllu lýsi ég fullri ábyrgð í þessu máli á hendur ríkisstjórninni.

Hvað varðar málsmeðferð er hún í raun eitt sjónarspil og var aldrei ætluð til neins annars en að knýja fram ábyrgð ráðherra Sjálfstfl. í málinu svo að ráðherrar Framsfl. sætu ekki einir uppi með þetta erfiða mál sem hefur klofið þjóðina í fylkingar. A.m.k. er alveg ljóst að aldrei var ætlunin að hlusta á rök þeirra þingmanna sem hafa lagt á sig mikla vinnu til að reyna að ná sáttum í málinu. Þetta er eitt sjónarspil, það sjónarspil að setja sig í þær stellingar að þykjast vera Skipulagsstofnun en ekki hv. Alþingi.

Að lokum langar mig til að fá að lesa lítið ljóð sem okkur þingmönnum öllum hefur borist og ég hef ekki orðið vör við að neinn hafi tekið hér upp, en það er frá ljóðahópnum sem hefur staðið vaktina í haust og flutt okkur ljóð á hverjum fimmtudegi. Ljóðið er eftir Hákon Aðalsteinsson, ef ég má flytja það, með leyfi forseta, og er svohljóðandi:

  • Heyr vorar bænir öræfaandi
  • óspilltra fjalla.
  • Gefðu oss mátt til að geyma þinn fjársjóð
  • um grundir og hjalla.
  • Laufgaðir bakkar, lágvaxinn gróður,
  • lindur sem kliða,
  • burkni í skoru, blóm í lautu
  • biðja sér griða.